Fimm nýir leikskólar og 750 fleiri pláss

Gert er ráð fyrir að fimm milljarða þurfi til að …
Gert er ráð fyrir að fimm milljarða þurfi til að byggja upp leikskólakerfi borgarinnar á næstu fimm árum. mbl.is/​Hari

Stefnt er að því að fjölga leikskólarýmum í Reykjavík um 700-750 á næstu fjórum til fimm árum og tryggja þannig öllum börnum 12 mánaða og eldri leikskólavist í borginni fyrir lok árs 2023. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu stýrihóps um að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla sem samþykkt var á fundi borgarráðs í síðustu viku.

Tillögur hópsins verða kynntar í heild sinni á blaðamannafundi í Ráðhúsi Reykjavíkur klukkan 15 í dag. Í skýrslunni segir að leikskólauppbyggingin muni kalla á mikla fjárfestingu af hálfu borgarinnar, um fimm milljarða á næstu fimm árum, og að mikilvægt sé að gert sé ráð fyrir henni í fjárfestingaráætlun borgarinnar fyrir tímabilið 2019-2023.

Fimm nýir leikskólar á næstu fimm árum

Tillögurnar eru sjö talsins. Ásamt fjölgun leikskólarýma er lagt til að byggðir verði fimm nýir leikskólar á næstu fimm árum. Leikskólarnir verða staðsettir í Úlfarsárdal, við Kirkjusand, Njálsgötu, Vogabyggð og Skerjafjörð. Þá er lagt til að viðbyggingar verði reistar við að minnsta kosti fimm leikskóla borgarinnar þar sem mikil eftirspurn er eftir leikskólarýmum. Einnig er lagt til að nýjar leikskóladeildir verði opnaðar í færanlegu húsnæði á næsta ári við fjóra leikskóla.

Fimm nýir leikskólar í jafn mörgum hverfum verða byggðir á …
Fimm nýir leikskólar í jafn mörgum hverfum verða byggðir á höfuðborgarsvæðinu á næstu fimm árum. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Öllum 12 mánaða börnum tryggt pláss fyrir árslok 2023

Í tillögunum er lagt til að á tímabilinu verði lokið við að setja á fót sérútbúnar ungbarnadeildir við alla borgarrekna leikskóla, sem hafa fjórar deildir eða fleiri, en það á við um 46 leikskóla borgarinnar. Stefnt er að opnun sjö nýrra ungbarnadeilda á ári og í næsta áfanga, það er á næsta ári, er lagt til að opnaðar verði ungbarnadeildir við leikskóla sem nú þegar eru með hvað flest ung börn. Það eru Bakkaborg í Breiðholti, Drafnarsteinn í Vesturbæ, Furuskógur í Fossvogi, Hlíð í Hlíðahverfi, Hulduheimar í Grafarvogi, Maríuborg í Grafarholti og Suðurborg í Breiðholti.

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar, á blaðamannafundi í …
Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar, á blaðamannafundi í dag. mbl.is/​Hari

Skúli Helgason, formaður skóla- og frí­stundaráðs og formaður stýrihópsins, segir í inngangi skýrslunnar að áform ríkisins um lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði verði að  veruleika sé mikilvæg forsenda verkefnisins en að borgin vilji og hyggist taka fulla ábyrgð á því að bjóða bönum leikskólaþjónustu að því loknu.

Helsti óvissuþátturinn felst í skorti á leikskólakennurum en Skúli segir að vonir standa til að kennaranemum muni fjölga og það samhliða markvissum aðgerðum Reykjavíkurborgar til að bæta starfsumhverfið muni bæta stöðuna á komandi árum. Miðað við spá um þróun barnafjölda á leikskólaaldri og uppbyggingaráform borgarinnar vonast borgaryfirvöld til að geta boðið öllum 18 mánaða börnum leikskólarými fyrir lok árs 2019, öllum 15 mánaða og eldri fyrir lok árs 2021 og öllum 12 mánaða börnum og eldri fyrir lok árs 2023. Tímamörkin eru þó sett fram með fyrirvara um stöðu mönnunarmála á hverjum tíma.

Á næsta er lagt til að opnaðar verði ungbarnadeildir við …
Á næsta er lagt til að opnaðar verði ungbarnadeildir við sjö leikskóla sem nú þegar eru með hvað flest ung börn. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Börnum fjölgi á sjálfstætt reknum leikskólum

Einnig er lagt til að formleg inntaka barna í leikskólum  borgarinnar verði tvisvar á ári, á haustin og um áramót, þar sem eru lauk leikskólarými og staða starfsmannamála leyfir.

Að lokum leggur starfshópurinn til að stefnt verði að fjölgun barna hjá sjálfstætt reknum leikskólum og dagforeldrum, í góðu samstarfi við viðkomandi rekstraraðila. Á næstu fimm árum er stefnt að því að börn í sjálfstætt reknum leikskólum fjölgi um allt að 167 til viðbótar þeirri fjölgun sem þegar er orðin á þessu ári.

60 milljónir króna viðbótarfjárveiting til dagforeldra

Samhliða áætlun um uppbyggingu á leikskólum borgarinnar hefur farið fram vinna í starfshópi um að endurskoða, þróa og breyta dagforeldraþjónustu í borginni og samþykkti skóla- og frístundaráð í haust að veita 60 milljónir króna í viðbótarfjárveitingu á ári, sem mun meðal annars felast í því að leggja til húsnæði fyrir starfsemi dagforeldra sem vinna tveir saman.

Þá verða stofnstyrkir verða teknir upp til að örva nýliðun og niðurgreiðslur vegna barna hjá dagforeldrum verða hækkaðar um 15% til að auka jafnræði þannig að daggæslan verði raunhæfari valkostur fyrir foreldra í samanburði við leikskólavistun.

Í pistli Skúla í skýrslunni segir hann að með þessari aðgerðaráætlun verði bilið milli fæðingarorlof og leikskóla loksins brúað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert