Róðurinn í innanlandsfluginu þungur

Hörður Guðmundsson forstjóri flugfélagsins Ernis segir rekstur flugfélagsins hafa verið …
Hörður Guðmundsson forstjóri flugfélagsins Ernis segir rekstur flugfélagsins hafa verið þungan undanfarið. Ljósmynd/Flugfélagið Ernir

Ásókn millilandaflugfélaganna í starfsfólk, gengi krónunnar og hækkandi olíuverð hefur komið niður á rekstri Flugfélagsins Ernis. Frá þessu er greint á ferðavefnum Túrista, sem segir farþegum í innanlandsflugi hafa farið fækkandi í ár.

Hefur Túristi eftir Herði Guðmundssyni forstjóra flugfélagsins að rekstur félagsins hafi verið þungur undanfarið. Það megi rekja „meðal annars til hækkandi olíuverðs og annarra aðfanga sem háð eru gengi gjaldmiðla,” segir Hörður.

Nefnir hann sem dæmi varahluti, tryggingar og þá hafi  launakostnaður farið hækkandi vegna launatengdra þátta. „Lítill launamunur er milli starfsmanna á stórum þotum og okkar 19 farþega flugvélum. Stærri félög á Íslandi hafa einnig sóst ríkulega eftir vel þjálfuðu flugfólki okkar undanfarin misseri sem valdið hefur félaginu verulegum kostnaði varðandi nýþjálfun flugmanna og flugvirkja,” bætir hann við. 

Air Iceland Connect, sem er hluti af Icelandair Group, er umsvifamesta fyrirtækið í innanlandsfluginu og hefur ítrekað komið fram í máli forsvarsmanna fyrirtækisins að rekstur Air Iceland Connect er krefjandi þessi misserin.

Segir Túristi stöðu flugfélaganna tveggja því erfiða, en á sama tíma sé umræða um há flugfargjöld innanlands hávær.

Í fyrrasumar skipaði samgönguráðherra starfshóp til að kanna mögulegar leiðir til að niðurgreiða innanlandsflug fyrir þá sem búa fjarri höfuðborginni líkt og gert hafi verið í Skotlandi. Njáll Trausti Friðbertsson, formaður hópsins og þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði í viðtali við RÚV í haust að lokaskýrsla um málið ætti að líta dagsins ljós fyrir jól.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert