9,8 milljónir um Keflavíkurflugvöll í ár

Talið er að heildarfjöldi þeirra farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll …
Talið er að heildarfjöldi þeirra farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll á þessu ári verði 9,8 milljónir. Ljósmynd/Hilmar Bragi

Uppfærðar tölur um farþegafjölda í nóvember og desembermánuði benda til þess að heildarfjöldi þeirra farþega sem fara um Keflavíkurflugvöll á þessu ári verði 9,8 milljónir. Þetta kemur fram í uppfærðri farþegaspá Isavia fyrir árið 2018, en farþegum sem fara um Keflavíkurflugvöll hefur fjölgað hratt síðustu ár.

Samkvæmt nýju spánni er útlit fyrir að aukningin verði eitthvað minni en spáð var í nóvember í fyrra og sem spáð var í uppfærðri spá í vor. Verður aukningin samkvæmt þessu 5,4% í nóvember og 3% í í desember. Fyrir árið í heild er aukningin hins vegar 12,2% og byggir sú spá meðal annars á ákveðinni sætanýtingu og verða þær tölur því ekki staðfestar fyrr en í lok árs.

„Farþegaspá Isavia fyrir árið 2019, sem að öllu jöfnu er kynnt í byrjun desember ár hvert, liggur ekki fyrir í dag og skýrist það meðal annars af breytingum á markaði, meðal annars vegna kaupa Icelandair á Wow Air. Samruninn seinkar því hvenær áreiðanleg gögn fást frá flugfélögunum og teljum við að spá fyrir 2019 verði tilbúin í byrjun næsta árs,“ er haft eftir Hlyn Sigurðssyni, framkvæmdastjóra viðskiptasviðs Keflavíkurflugvallar, í fréttatilkynningu frá Isavia. 

Skammt er síðan tilkynnt var um níu milljónasta farþegann sem fór um Keflavíkurflugvöll á árinu, en sú  tala tekur til komu-, brottfarar- og skiptifarþega og var þetta í fyrsta sinn sem því takmarki hefur verið náð á Keflavíkurflugvelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert