Auglýsingasala RÚV fyrir HM ekki óeðlileg

RÚV tekur hlutverk sitt í almannaþjónustu alvarlega.
RÚV tekur hlutverk sitt í almannaþjónustu alvarlega. mbl.is/Eggert

Fjölmiðlanefnd tekur ekki undir ásakanir Símans um að Ríkisútvarpið hafi beitt óeðlilegum aðferðum við sölu auglýsinga fyrir HM karla í knattspyrnu í sumar. Fjölmiðlanefnd hafnar ávirðingum um óeðlileg skilyrði fyrir lágmarkskaupum, kröfu um önnur viðskipti eða bindingu út árið.

Þá er ásökunum um að viðskiptalegar forsendur auglýsingasölu stjórni dagskrá RÚV hafnað. Þetta kemur fram í tilkynningu frá RÚV, þar sem segir að niðurstaða fjölmiðlanefndar sé í samræmi við frummat Samkeppniseftirlitsins.

Fjölmiðlanefnd gerir þó athugasemdir við framsetningu verðskrár í tengslum við viðburði, en í tilkynningu segir að RÚV hafi þegar brugðist við og breytt framsetningu á vefsíðu sinni.

Gert að greiða milljón í stjórnvaldssekt

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri kveðst sáttur við niðurstöðu fjölmiðlanefndar. „Við leggjum áherslu á að fylgja þeim reglum sem gilda um þennan þátt starfseminnar rétt eins og starfsfólk RÚV tekur hlutverk sitt í almannaþjónustu alvarlega.“

Uppfært kl. 14:40: Samkvæmt úrskurði fjölmiðlanefndar, sem nú hefur verið birtur, er Ríkisútvarpinu gert að greiða eina milljón króna í stjórnvaldsekt, annars vegar vegna ófullnægjandi birtingar gjaldskrár fyrir auglýsingar og kostanir í tengslum við HM 2018.

Hins vegar braut RÚV gegn lögum um Ríkisútvarpið með kostun á dagskrárliðnum Saga HM, sem sýnd var á RÚV sumarið 2018. Fjölmiðlanefnd féllst ekki á að tengsl þáttanna við HM 2018 hafi réttlætt kostun þáttaraðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert