„Miðað við að allt fari á versta veg“

Ljósmynd/Páll Ketilsson

Guðbrandur Einarsson, formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja, segir að uppsagnirnar hjá Airport Associates, 237 talsins, séu hugsaðar sem varúðarráðstöfun.

„Þetta er miðað við að allt fari á versta veg en ef eitthvað gengur upp af því sem verið er að gera núna munu þeir draga til baka eins og þeir geta,“ segir Guðbrandur.

Hann segir að félagið hafi verið í samráði við Airport Associates undanfarnar vikur og að þeir fari í einu og öllu eftir þeim kjarasamningum sem liggja að baki störfunum sem um ræðir.

Guðbrandur Einarsson, formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja.
Guðbrandur Einarsson, formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja. mbl.is/Hanna

„Dapurleg niðurstaða“

„Þetta er auðvitað dapurleg niðurstaða. Það verður að vinna úr þessu eins og kostur er.“ Hann segir að næstu dagar fari í það hjá stéttarfélögum og fyrirtækinu að ræða við fólkið og hlúa að því.

Aðspurður segir hann fjölda þeirra sem sagt var upp hafa komið sér á óvart. Fyrir nokkrum dögum bjóst hann við öðru en eftir að tilkynnt var í morgun að Icelandair myndi ekki kaupa WOW air hafi hlutirnir breyst.

„Það er alvarlegt þegar fólk er að missa vinnuna. Ég tala nú ekki um þegar slíkur fjöldi tapar vinnunni á einu bretti,“ bætir hann við og kveðst ekki muna eftir annarri eins hópuppsögn síðan varnarliðið fór af landi brott árið 2006.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert