Átta milljarða jákvæður rekstur

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar

A-hluti Reykjavíkurborgar var rekinn með ríflega átta milljarða króna jákvæðri niðurstöðu fyrstu níu mánuði þessa árs samkvæmt árshlutareikningi sem kynntur var í borgarráði í morgun.

Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um 8.166 milljarða króna og skýrist hún einkum af hærri tekjum af sölu byggingarréttar, sem var 3.099 milljónir króna umfram áætlun, að því er kemur fram í tilkynningu frá borginni. 

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir uppgjörið sýna sterkan rekstur borgarsjóðs. „Níu mánaða uppgjörið sýnir einfaldlega góðan árangur og ábyrga fjármálastjórn. Þessu mesta uppbyggingarskeiði í sögu borgarinnar fylgja einnig umtalsverðar tekjur sem er jákvætt fyrir rekstur borgarinnar,“ segir Dagur í tilkynningunni.

Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A- og B-hluta, var jákvæð um 15.243 milljónir króna.

Heildareignir samstæðunnar námu í lok september 619.908 milljónum króna. Heildarskuldir ásamt skuldbindingum voru 315.500 milljónir króna og eigið fé var 304.409 milljónir króna en þar af var hlutdeild meðeigenda 16.270 milljónir. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar er nú 49,1% en var 49,0% um síðustu áramót, samkvæmt tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert