Ekki fólksbílafært innanbæjar

Mynd úr safni, tekin fyrir ári á Akureyri.
Mynd úr safni, tekin fyrir ári á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Töluverður erill hefur verið hjá lögreglunni á Akureyri í nótt og gærkvöldi vegna slæmrar færðar. Að sögn lögreglu er ekki fólksbílafært innanbæjar en starfsmenn Akureyrarbæjar eru að hefja mokstur á götum bæjarins. 

Mjög hefur snjóað fyrir norðan síðasta sólarhringinn og er í gildi gul viðvörun á Norðausturlandi til klukkan 14 á morgun. Þar er norðaustan 10-18 m/s og hríð, bæði á fjallvegum og láglendi. Samgöngutruflanir líklegar og ferðaveður varasamt, segir á vef Veðurstofu Íslands.

Norðurland: Lokað er á Þverárfjalli, Öxnadalsheiði, Siglufjarðarvegi, Ólafsfjarðarmúla og Víkurskarði og ófært í Ljósavatnsskarði. Þæfingur eða þungfært er á Eyjafjarðarsvæðinu. Hálka, snjóþekja eða þæfingur er á velflestum leiðum. Hvasst og éljagangur.

Norðausturland: Lokað er um Mývatns- og Möðrudalsöræfi en einnig á Vopnafjarðarheiði og Hófaskarði. Flestir aðrir vegir þungfærir en snjóþekja með ströndinni. Víðast hvar óveður eða stórhríð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert