Ber skylda að standa vörð um náttúruna

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra setti fullveldishátíðina.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra setti fullveldishátíðina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra fjallaði um skyldur íslensku þjóðarinnar við setningu fullveldishátíðar í dag. Þær skyldur að standa vörð um þau einstöku náttúruverðmæti sem við eigum og nýta auðlindir okkar með sjálfbærum hætti. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

Meðal gesta við setningarathöfnina voru Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Margrét II. Danadrottning og Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Dana

Katrín segir að fullveldið hafði ekki komið af sjálfu sér fyrir 100 árum. Mörg voru þau sem áttu þennan draum um frjálst og fullvalda ríki; og mörg voru þau sem lögðu hönd á plóg til að ná þessu markmiði sem vafalaust hefur virst fjarlægt oft og tíðum. Saga Íslands á síðustu 100 árum hefur heldur ekki verið saga værðar og hvíldar, segir hún.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Við erum alls konar

„En hvaða örlög eigum við val um nú? Við sem byggjum íslenskt samfélag, við vitum það að okkur hefur verið trúað fyrir miklu. Við vitum að við eigum einstaka náttúru, stærstu ósnortnu víðerni Evrópu, endurnýjanlega orkugjafa sem munu verða Íslandi dýrmætir til framtíðar, gjöful fiskimið og einstaka fegurð.

Við vitum að við eigum tungumál sem geymir ótrúleg blæbrigði, óteljandi orð yfir birtu, myrkur, vind og sjó. Tungumál sem geymir hugmyndaheim Íslendinga allt frá landnámi þar sem menn skipta litum þegar tilfinningarnar bera þá ofurliði, stökkva hæð sína í fullum herklæðum og konur neita körlum um lokk úr hári sínu.

Við eigum samfélag sem hefur þroskast og þróast. Á hundrað árum höfum við byggt upp sjúkrahús og leikskóla og rannsóknastofnanir og leikhús og bókasöfn. Við höfum byggt upp almannatryggingar og fest í sessi mikilvæg mannréttindi. Þjóðin er fjölmennari og fjölbreyttari. Við tölum hundrað tungumál. Við forritum, skerum upp sjúklinga, kennum börnum, veiðum fisk eða við gerum eitthvað allt annað. Við skrifum og syngjum og sköpum og leikum. Við erum hann og hún og hán. Við erum alls konar,“ segir Katrín.

Hún segir íslenska þjóð eiga fullveldinu mikið að þakka en um leið leggur það ríkar skyldur á herðar okkar.

„Þær skyldur að standa vörð um þau einstöku náttúruverðmæti sem við eigum og nýta auðlindir okkar með sjálfbærum hætti. Að tryggja að við öll sem hér búum fáum notið samfélagslegra gæða og þátttöku í samfélaginu. Að skynsamlega sé haldið utan um stjórn efnahagsmála og verðmætasköpun þannig að við tryggjum lífsgæði fyrir okkur öll. Að við varðveitum og tölum íslensku og tryggjum að við notum hana ekki einungis um forna kappa og kvenskörunga heldur líka um það sem gerist í tölvuleikjum, fjármálamarkaði, veðurfræði og geimvísindum.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

Hér er hægt að lesa ávarp Katrínar í heild

Þá fluttu Kristbjörg Mekkín Helgadóttir og Mathias Ölvisson, fulltrúar Ungmennaráðs Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna ráðsins og Jelena Ćirić tónlistarkona, einnig ávörp við athöfnina.

Söngfólk ásamt blásarasveit skipuð reyndum tónlistarmönnum í bland við blásara úr Skólahljómsveit Austurbæjar, Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts og Skólahljómsveit Kópavogs önnuðust tónlistarflutning við athöfnina. Tónlistarstjóri var Samúel Jón Samúelsson og auk hans skipuðu tónlistarteymið þau Ástbjörg Rut Jónsdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Hilmar Örn Agnarsson og Nanna Hlíf Ingvadóttir. Kórarnir sem tóku þátt voru Hinsegin kórinn, Skólakór Kársness, Kvennakórinn Katla, Múltíkúltíkórinn, Söngfjelagið, Karlakór Kjalnesinga, Ekkó kórinn, Léttsveitin, ásamt tveimur söngvurum, sem sungu á íslensku táknmáli, þeim Kolbrúnu Völkudóttur og Uldis Ozols.

Hver á sér fegra föðurland eftir Emil Thoroddsen við ljóð eftir Huldu, Draumalandið eftir Sigfús Einarsson við ljóð Jóns Trausta í útsetningu Samúels Jóns Samúelssonar, Víkivaki eftir Valgeir Guðjónsson við ljóð Jóhannesar úr Kötlum voru sungin við athöfnina. 

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert