Fagnar breiðri sátt um borgarlínu

Dagur segir niðurstöður hópsins að mestu í samræmi við hugmyndir …
Dagur segir niðurstöður hópsins að mestu í samræmi við hugmyndir borgarinnar um uppbyggingu borgarlínu. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Þetta er mjög stór áfangi í að koma borgarlínunni af stað og það er fagnaðarefni að náðst hafi breið samstaða ríkis og sveitarfélaga,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, í samtali við mbl.is um niðurstöður skýrslu sem viðræðuhópur um samgöngur á höfuðborgarsvæðinu sem kynntar voru ríkisstjórn og fulltrúum sveitarstjórna í gær.

Dagur segir niðurstöður hópsins að mestu í samræmi við hugmyndir borgarinnar um uppbyggingu borgarlínu og að mikilvægt sé að Alþingi fylgi þeim eftir og geri breytingar á samgönguáætlun.

„Nú eru allir sammála um að þetta þurfi að koma til til þess að bæta umferðina og gefa fólki kost á að breyta um ferðavenjur. Það sem skiptir líka miklu máli er að greiningarnar sýna að þessi lausn er líka best fyrir þá sem vilja keyra bíl, því það verður meira rými fyrir umferðina.“

Hann segir jafnframt fagnaðarefni að aukin áhersla sé lögð á hjólandi vegfarendur, sem geri það að verkum að fjárfest verði jafnar í öllum ferðamátum í samgönguáætlun.

Myndi helst vilja sjá Miklubraut í stokk flýtt

Í fljótu bragði segist Dagur ekki sjá neitt í niðurstöðum skýrslunnar sem mætti betur fara. „Auðvitað eru einstaka framkvæmdir sem einstök sveitarfélög myndu vilja flýta, en það er kannski eitthvað sem hægt verður að kíkja á við frágang samgönguáætlunar.“

Miklabraut í stokk myndi auka lífsgæði.
Miklabraut í stokk myndi auka lífsgæði. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það veitir ekki af, það á að fara strax í hönnun og undirbúning og fyrstu framkvæmdir 2020 og það er í góðu samræmi við viljayfirlýsinguna sem var skrifað undir í haust. Síðan verður farið í þessu af fullu afli frá og með 2021,“ segir Dagur, og að borgin muni nú, í samvinnu við ríkið, leggja grunn að breyttu skipulagi og hönnun svo tímaáætlanir standist.

Aðspurður hvaða framkvæmdum hann myndi helst vilja sjá flýtt segir Dagur að það væri helst stokkur á Miklubraut. „Það hefur sýnt sig að hann mun hafa mjög mikil og góð áhrif á umferðarflæði, loftgæði, hljóðvistun og lífsgæði á stóru svæði borgarinnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert