Ganga ekki til liðs við Miðflokkinn

Þingmennirnir Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson.
Þingmennirnir Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson. Samsett mynd

Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason þingmenn sem voru reknir úr Flokki fólksins í gær munu starfa áfram á Alþingi sem óháðir þingmenn og  í samtali við mbl.is segir Ólafur ótímabært að ræða samstarf við aðra stjórnmálaflokka á þessu stigi.

Mikið hefur verið rætt um að þingmennirnir ætli sér að skipta um flokk og ganga til liðs við Miðflokkinn eftir að greint var frá því í fjölmiðlum að þingmenn Miðflokksins hefðu reynt að fá þá Ólaf og Karl Gauta til að yfirgefa Flokk fólksins þegar þeir ræddu saman á barnum Klaustur 20. nóvember síðastliðinn.

„Mér virðist sem stjórn­in hafi greitt Flokki fólks­ins þungt högg með þess­ari ákvörðun. Þessi ákvörðun kall­ar á nán­ari skýr­ing­ar af hálfu henn­ar. Hún sýn­ist lítt grunduð. Til mín hafa ekki verið rak­in nein um­mæli sem eru sær­andi eða meiðandi í garð nokk­urs manns. Ég fór þegar ég taldi að í óefni stefndi en hefði átt að sjá það fyrr og fara fyrr, svo það sé viður­kennt,“ sagði Ólaf­ur Ísleifs­son í sam­tali við Morg­un­blaðið í gær­kvöldi.

„Við Gauti verðum óháðir þing­menn. Á milli okk­ar hef­ur verið þétt mál­efna­leg og per­sónu­leg samstaða og ég á von á að hún hald­ist,“ sagði Ólaf­ur einnig við það tilefni.

Í samtali við mbl.is í dag ítrekaði hann afstöðu þeirra um að þeir myndu standa saman tveir utan flokka. Spurður að því hvort það kæmi til greina að ganga til liðs við Miðflokkinn sagði Ólafur:

„Ekkert slíkt hefur verið rætt. Það er alveg ótímabært að ræða samstarf við aðra einstaka stjórnmálaflokka á þessu stigi.“

Þá var hann afdráttarlaus í svari þegar hann var spurður hvort aðrir flokkar kæmu til greina og sagði einfaldlega: „Nei.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert