Verðhækkun á bílum gangi til baka

Bílar í Reykjavík.
Bílar í Reykjavík. mbl.is/Golli

Helstu ástæður minnkandi sölu nýrra fólksbíla á þessu ári má rekja til verðhækkana sem orðið vegna veikingar á gengi krónunnar, en einnig vegna hækkunar á vörugjöldum vegna breytinga á mæliaðferðum á útblæstri bíla. Ræður þar mestu samdráttur undanfarna þrjá mánuði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu.

Gera má ráð fyrir að verðhækkun vegna vörugjaldabreytinga gangi að hluta til til baka á flestum gerðum nýrra fólksbíla í kjölfar lagabreytinga sem samþykktar voru á Alþingi í lok síðasta mánaðar og tóku gildi 30. nóvember.

„Bílgreinasambandið benti ítrekað á þau fyrirsjáanlegu áhrif sem óvissa um breytingar á vörugjöldum myndu hafa á bílasöluna eins og raunin varð. María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins, fagnar því mjög áorðnum lagabreytingum sem eyddu óvissunni,“ segir í tilkynningunni.

Sala nýrra fólksbíla í nóvember var 29,6% minni en í sama mánuði í fyrra sem var langstærsta ár í sölu bíla frá upphafi. Í nýliðnum mánuði voru 722 bílar nýskráðir samanborið við 1.026 í sama mánuði fyrra árs og nemur samdrátturinn 304 bílum. 

Fyrstu 11 mánuði ársins voru 17.494 fólksbílar nýskráðir, 14,2% færri en á sama tímabili 2017. Fólksbílasalan fyrstu ellefu mánuðina var þó nánast á pari við sama tímabil 2016.

Raf- og tengiltvinnbílar auka jafnt og þétt hlutfall sitt á fólksbílamarkaði landsmanna. Salan í nóvember var einu prósenti meiri en í október og er hlutfall þeirra á fólksbílamarkaðnum í heild nú um 21%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert