BBC fjallar um Klausturmálið

Mótmælendur kröfðust taf­ar­lausra upp­sagna allra þeirra þing­manna sem komu að …
Mótmælendur kröfðust taf­ar­lausra upp­sagna allra þeirra þing­manna sem komu að „Klaust­urs-mál­inu“. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ummælin sem þingmenn Miðflokks og Flokk fólks­ins létu falla á veit­ingastaðnum Klaustri 20. nóv­em­ber síðastliðinn og náðust á upp­töku hafa vakið athygli fyrir utan landssteina og í dag birti breska ríkisútvarpið ítarlega umfjöllun um málið. 

Í frétt BBC er sagt frá því að íslenskir kjósendur krefjist þess að þingmennirnir sex sem áttu í hlut segi af sér. Þá er bent á að Ísland hafi lengst af verið í fararbroddi þegar kemur að réttindum kvenna og að hér sé kona í embætti forsætisráðherra.

Í fréttinni segir að íslenska þjóðin sé í áfalli og þá er sérstaklega fjallað um þegar þing­menn­irn­ir gerðu grín að Freyju Har­alds­dótt­ur, fyrr­ver­andi þing­manni, meðal ann­ars með því að herma eft­ir sel þegar Freyja barst í tal. Blaðamaður BBC ræðið við Bryndísi Snæbjörnsdóttur, formann Landssamtaka Þroskahjálpar, þar sem hún segir ummælin um Freyju vera hatursorðræðu.

Minnst er á að fyrrverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sé einn þeirra þingmanna sem sat á barnum þetta kvöld og er stjórnmálasaga hans og tengsl við Panama-skjölin rifjuð stuttlega upp. Einnig er sagt frá afsökunarbeiðni Sigmundar til Freyju sem telur hana ekki fullnægjandi þar sem beðist sé af­sök­un­ar en sam­tím­is reynt að hrút­skýra, efti­r­á­skýra og hrein­lega ljúga til um það sem átti sér stað.

Þá er einnig sagt frá mótmælunum sem haldin voru á laugardag „í telfni af þeim yf­ir­gengi­legu for­dóm­um og mann­fyr­ir­litn­ingu sem hóp­ur þing­manna hafði frammi á fundi sín­um á Klaust­urs­barn­um í Templ­ara­sundi,“ eins og fram kom í tilkynningu frá skipuleggjendum mótmælanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert