Blóðrásarsjúkdómar og æxli helsta dánarorsök

Í aldursflokknum 35–64 ára eru æxli algengasta dánarorsökin eða 46%.
Í aldursflokknum 35–64 ára eru æxli algengasta dánarorsökin eða 46%. mbl.is/Guðmundur Rúnar

Flestir létust úr blóðrásarsjúkdómum þegar horft er til tíu ára tímabils frá 2008-2017, eða 7.065 landsmenn sem svarar til rúmlega þriðjungs allra látinna (34%). Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar um dánarmein fyrir árin 2016 og 2017.

Þar á eftir létust 6.031 úr æxlum eða 29% allra látinna. Alls létust 1.083 úr sjúkdómum í taugakerfi (9,5%) og 1.812 úr sjúkdómum í öndunarfærum (8,7%). Fæstir létust hins vegar vegna ytri orsaka eða 1.331 sem svarar til 6% af heildarfjölda látinna á tímabilinu.

Þegar rýnt er í dánarmein hjá yngri aldursflokkum kemur í ljós að dánarmein skiptast þar með öðrum hætti en þegar horft er til dánarmeina allra aldursflokka. Fram að 34 ára aldri látast til að mynda flestir úr ytri orsökum eða 54%. Töluverður munur er á kynjunum hvað þetta varðar, en 61% karla deyja af ytri orsökum á móti 38% kvenna.

Í aldursflokknum 35–64 ára eru æxli algengasta dánarorsökin eða 46%. Þar er einnig mikill munur á kynjunum þar sem mun fleiri konur (59%) deyja úr æxlum á þessu aldursskeiði en karlar (37%). Þó ber að hafa í huga í þessu samhengi að hlutfallslega látast mun færri yngri en 65 ára, eða einungis tæp 17% allra látinna á tímabilinu 2008–2017. Í aldursflokknum 65–79 ára eru æxli enn algengust, með 43% hlutdeild á móti 28% vegna blóðrásarsjúkdóma en röðun annarra dánarorsaka er sú sama og fyrir heildarfjölda látinna, að því er segir í fréttinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert