Leiklestur „beint af kúnni“

Kristín Eysteinsdóttir borgarleikhússtjóri segir að leikhúsið hafi viljað bregðast við …
Kristín Eysteinsdóttir borgarleikhússtjóri segir að leikhúsið hafi viljað bregðast við hlutverki sínu um að varpa ljósi á samfélagsleg málefni með því að leiklesa hluta úr samtölum þingmannanna sex á Klaustur í nóvember. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta verður lesið eins og það kemur beint af kúnni,“ segir Kristín Eysteinsdóttir, leikhússtjóri Borgarleikhússins, um leiklestur hluta af samtali þingmannanna á Klaustri 20. nóvember. Kristín segir að með leiklestrinum vilji leikhúsið sinna hlutverki sínu að varpa ljósi á samfélagsleg málefni. Hægt verður að fylgjast með leiklestrinum í beinni útsendingu á mbl.is. 

„Við munum ekki leggja túlkun á orðin eða leika ölvun eða slíkt, við teljum að það sé sterkara að leyfa orðunum að standa eins og þau eru og munum flytja þetta eins og það kemur fyrir,“ segir Kristín.  

Vilja afhjúpa samtalið með leiklestrinum

Hugmyndin um að leiklesa brot út samtölunum kom upp á föstudag. „Við fórum að velta fyrir okkur hver ábyrgð lýðræðislegra kjörinna fulltrúa er og við hugsuðum hvað myndi gerast ef textinn yrði tekinn og lesinn upp. Það myndi kannski afhjúpa hann að einhverju leyti og við ákváðum strax að fá leikkonur til þess að lesa því að það setur textann í annað samhengi,“ segir Kristín.

Hún hafði samband við Berg Þór Ingólfsson sem tók vel í verkefnið sem og leikararnir.  „Það voru allir til í að gera þetta og það er auðvitað frábært þegar leikhúsið getur brugðist svona við, leikhúsið hefur auðvitað mjög djúpar rætur í lýðræðinu og er nátengt því og okkur finnst þetta vera mikilvægt samfélagslegt hlutverk sem kristallast í þessu,“ segir Kristín.  

40 blaðsíður af samræðum þingmannanna

Leiklesturinn fer fram á Litla sviði Borgarleikhússins og hefst klukkan 20:30. Sem fyrr segir mun Bergur Þór Ingólfsson leikstýra leiklestrinum og leikarar eru Edda Björg Eyjólfsdóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Hilmar Guðjónsson.

Leikhópurinn mun fara í gegnum samtalið í réttri tímaröð og flytja þá kafla sem hafa birst opinberlega og telur handritið um 40 blaðsíður. Að lestrinum loknum fara fram umræður með fulltrúum úr fræðasamfélaginu og fjölmiðlum sem munu ræða um ábyrgð kjörinna fulltrúa og orðræðu síðustu daga.

Húsið opnar klukkan 20 og er aðgangur á viðburðinn ókeypis á meðan húsrúm leyfir en ef salurinn fyllist verður honum einnig streymt í forsal hússins. Þá verður auk þess hægt að fylgjast með streymi frá viðburðinum hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert