Spyr um úrbætur geðheilbrigðismála

Umboðsmaður vill vita hvort tillögur að úrbótum í geðheilbrigðisþjónustu fanga …
Umboðsmaður vill vita hvort tillögur að úrbótum í geðheilbrigðisþjónustu fanga munu bæta úr anmörkum. Haraldur Jónasson / Hari

Umboðsmaður Alþingis hefur sent dómsmálaráðherra fyrirspurn um hvort fyrirhugaðar úrbætur í geðheilbrigðismálum fanga séu fullnægjandi að því leiti að bætt verður úr þeim vanköntum sem bent hefur verið á. Hefur ráðuneytið frest til 15. desember að svara umboðsmanni.

Fram kom í svari dómsmálaráðuneytisins til umboðsmanns í sumar að mannréttindi fanga væru ekki tryggð vegna skorts á geðheilbrigðisþjónustu innan fangelsisstofnana. Fékk dómsmálaráðuneytið frest til 15. september að koma með tillögur að úrbótum.

Skortur á skýrum svörum bæði dómsmála- og heilbrigðisráðuneytis um hvað gera eigi til að tryggja mannréttindi geðsjúkra fanga með fullnægjandi hætti, leiddi til þess að umboðmaður Alþingis kynnti forsætisráðherra málið til að samhæfa stefnu og aðgerðir ráðherra.

Heilbrigðisráðherra hefur nú svarað umboðsmanni á þann veg að ráðuneytið hyggst leggja fyrir Sjúkratryggingar Íslands samningsforsendur vegna samnings milli Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Sjúkratrygginga um almenna geðheilbrigðisþjónustu fyrir fanga á Hólmsheiði.

Þá segir í svarinu að samningur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítala á sviði geðheilbrigðismála verði fyrirmynd að sambærilegum samningum milli þeirra sem stofnanna sem sinna heilbrigðisþjónustu í öðrum fangelsum og geðdeilda Landspítala og/eða Sjúkrahússins á Akureyri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert