Þingmenn með ferföld lágmarkslaun

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. mbl.is/Valli

„Er starf forsætisráðherra í alvöru 6-7 sinnum mikilvægara en umönnunarstarf?“ Að því er spurt í fréttatilkynningu frá Alþýðusambandi Íslands vegna fregna um að laun forseta Íslands, ráðherra og þingmanna muni til framtíðar ákvarðast á grundvelli breytinga á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins.

Það kemur fram í frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarna Benediktssonar, sem birt var á vef Alþingis í gær.

Fram kemur á vef ASÍ að betra sé að ákvarðanir verði gagnsærri en ekki nánast handahófskenndar eins og ákvarðanir kjararáðs voru oft. Hins vegar muni ofurhækkanir kjararáðs festast í lög.

Ef frumvarpið verður samþykkt er forseti Íslands með 10-11 föld lágmarkslaun ríkisstarfsmanna. Forsætisráðherra og aðrir ráðherrar eru með 6-7 föld lágmarkslaun ríkisstarfsmanna en þingmenn eru með ferföld lágmarkslaun,“ kemur fram á vef ASÍ.

„Ef laun eiga kristalla ábyrgð og mikilvægi starfa gegnir forsetinn því 10-11 sinnum mikilvægara og ábyrgðameira starfi en starfsfólk í ræstingum og umönnun. Er það sanngjarnt?“

Enn fremur kemur fram að samkvæmt frumvarpinu eigi fjármálaráðherra að taka ákvarðanir um laun kjörinna fulltrúa, sáttasemjara, seðlabankastjóra, saksóknara og dómara út frá hækkunum á reglulegum launum starfsmanna ríkisins undangengið ár. 

Alþýðusambandið hefur sagt að það sé lágmark að vinda ofan af launum kjörinna fulltrúa og/eða frysta þau til ársloka 2021. Nú er heimilt að taka ákvarðanir um enn eina hækkunina strax í júlí á næsta ári. „Við viljum ganga lengra og nýta þetta tækifæri til að ákvarða hvaða launasetning er sanngjörn og réttlát miðað við lægstu laun,“ segir á vef ASÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert