Birta laun þingmanna frá árinu 2007

Alþingi hefur birt upplýsingar um laun og kostnaðargreiðslur þingmanna frá …
Alþingi hefur birt upplýsingar um laun og kostnaðargreiðslur þingmanna frá alþingiskosningunum árið 2007. Upplýsingarnar eru aðgengilegar á vef Alþingis. mbl.is/​Hari

Frá og með deginum í dag er hægt að nálgast upplýsingar um laun og kostnaðargreiðslur þingmanna frá alþingiskosningunum árið 2007 á vef Alþingis. 

Birtingin er í samræmi við ákvörðun forsætisnefndar frá 9. apríl fyrr á þessu ári. Í febrúar var opnaður fyrsti áfangi nýrr­ar upp­lýs­ingasíðu á vef Alþing­is, en þar eru birt­ar fast­ar launa­greiðslur til sitjandi þing­manna og fast­ar kostnaðargreiðslur. 

Hægt er að nálgast upplýsingarnar á forsíðu heimasíðu Alþingis undir „Greiðslur til þingmanna.“ Á vefsíðunni eru nöfn þingmanna birt í stafrófsröð. Þegar smellt er á nafn þingmanns birtast upplýsingar um hann. Þar er hægt að smella á einstaka kostnaðarþætti, t.d. húsnæðis- og dvalarkostnað, og fá upplýsingar hvað felst í þeim kostnaðargreiðslum.

Í tilkynningu frá Alþingi segir að undanskildir birtingunni séu fyrrverandi þingmenn sem látist hafa og er miðað við andlát fyrir 1. desember 2018. Um birtingu fjárhagsupplýsinga aftur í tímann leitaði Alþingi álits Persónuverndar og gaf jafnframt öllum þingmönnum sem í hlut eiga kost á að gera athugasemdir.

Vefsíðan er uppfærð um 25. hvers mánaðar og birtar nýjar upplýsingar fyrir undangenginn mánuð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert