Leggja til allt að 50% niðurgreiðslu flugs

Hópurinn leggur til allt að 50% niðurgreiðslu á innanlandsflugi þeirra …
Hópurinn leggur til allt að 50% niðurgreiðslu á innanlandsflugi þeirra sem búa á sérstaklega skilgreindum svæðum á landsbyggðinni. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarssn

Nefnd um framtíðarfyrirkomulag innanlandsflugs leggur til að innanlandsflug fyrir íbúa á ákveðnum svæðum landsins verði niðurgreitt um allt að 50% samkvæmt skýrslu sem nefndin hefur skilað af sér. Þá er mælt með að fjórir flugvellir; Keflavíkurflugvöllur, Reykjavíkurflugvöllur, Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur, verði skilgreindir sem kerfi flugvalla með sameiginlegan kostnaðargrunn og að Isavia verði falin fjárhagsleg ábyrgð á rekstri, viðhaldi og uppbyggingu þeirra.

Þá er lagt til að þjónustugjald á bilinu 100 til 300 krónur verði lagt á hvern fluglegg til að standa straum af uppbyggingu og rekstri innanlandsflugkerfisins. Einnig er lagt til að Isavia og tollayfirvöld tryggi hnökralausa umferð farþega í beinu tengiflugi um Keflavíkurflugvöll til að stuðla að dreifingu ferðamanna t.d. frá Keflavík til Akureyrar.

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Árni Sæberg

Í tillögunum segir að skilgreina eigi sérstök svæði á landinu þar sem íbúar sem ferðist í einkaerindum geti notið 50% niðurgreiðslu á flugfargjöldum til og frá svæðinu, en þó að hámarki fjórar ferðir meðan reynsla er að komast á kerfið.

Með því að skilgreina fleiri flugvelli sem sameiginlegan kostnaðargrunn er hægt að nýta arð af starfsemi Isavia, t.d. á Keflavíkurflugvelli, til að bæta innanlandskerfið að því er fram kemur í skýrslunni. Er meðal annars vísað til þess að rekstrarhagnaður Isavia árið 2017 hafi verið tæplega 10 milljarðar króna. Nefndin leggur til að þessi skilgreining eigi við frá árinu 2020. Frá árinu 2024 er lagt til að aðrir flugvellir í grunnneti innanlandsflugs verði hluti af sama flugvallakerfi.

Samkvæmt tillögunum verður Egilsstaðaflugvöllur hluti af kerfi flugvalla með sameiginlegan …
Samkvæmt tillögunum verður Egilsstaðaflugvöllur hluti af kerfi flugvalla með sameiginlegan kostnaðargrunn frá árinu 2020. mbl.is/RAX

Í dag rekur Isavia ohf. fjóra millilandaflugvelli á Íslandi og átta flugvelli með áætlunarflugi innanlands. Þeir eru á Bíldudal, Gjögri, Húsavík, Þórshöfn, Vopnafirði, Höfn, í Grímsey og Vestmannaeyjum. Í innanlandskerfinu eru um 800 þúsund hreyfingar, þar sem einn flugleggur með flugtaki og lendingu telst tvær hreyfingar.

Lesa má skýrslu nefndarinnar í heild hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert