„Sjáum borgarlínu færast nær“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. mbl.is/Arnþór Birkisson

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2019 og fimm ára áætlun til 2023 var samþykkt á fundi borgarstjórnar í kvöld. Mikil áhersla er lögð á græn verkefni í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2019 og fimm ára áætlun en þar er gert ráð fyrir fjármögnun borgarlínunnar upp á fimm milljarða króna.

Í fjárhagsáætlun næsta árs er gert ráð fyrir því að niðurstaða rekstursins verði jákvæð um 3,6 milljarða króna.

Í tilkynningu frá borginni kemur fram að sumaropnanir leikskóla hafi verið samþykktar, áframhaldandi gjaldfrjáls námsgögn í grunnskólum, fjölgun NPA-samninga, lengdur afgreiðslutími Ylstrandarinnar í Nauthólsvík og aukin áhersla á snjalltækni í samgöngum. 

Þá var samþykkt að auka framlög vegna móttöku barna af erlendum uppruna og íslenskukennslu. Einnig var samþykkt að barnafjölskyldur greiði einungis námsgjald fyrir eitt barn, þvert á skólastig. Aukin framlög vegna hreinsunar borgarlandsins voru samþykkt en þeim er ætlað að minnka svifryk og gera borgina snyrtilegri.

Í breytingatillögu við fimm ára áætlun er gert ráð fyrir lækkun fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði frá og með árinu 2021 en í samstarfssáttmála Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna er kveðið á um að fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði lækki úr 1,65 í 1,60 fyrir lok kjörtímabilsins.

Einnig er gert ráð fyrir að Laugavegi verði breytt í göngugötu og fleiri götur í miðborginni verða gerðar upp sem vistgötur auk þess sem ný torg eru að verða til, Bæjartorg, Steinbryggjan og Naustatorg. Þá verður aðstaða í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum bætt.

„Við erum að bæta aðeins við ýmis mikilvæg verkefni milli umræðna. Stóru málin eru samt húsnæðismálin þar sem nýjar íbúðir eru að rísa út um allt. Árið í ár er okkar stærsta í húsnæðisuppbyggingu frá upphafi en aldrei áður hafa eins margar íbúðir verið í byggingu í Reykjavík,“ er haft eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra.

„Á sama tíma sjáum við borgarlínuna færast nær okkur og raungerast í áætlun upp á fimm  milljarða króna á næstu árum. Fjárfestingar í innviðum hafa heldur aldrei verið meiri en ný hverfi með nýjum götum eru að rísa ásamt nýjum íþróttamannvirkjum í austurhluta borgarinnar fyrir krakkana og unga fólkið okkar. Þá er sett fjármagn í nýja leik- og grunnskóla til að mæta barnafjöldanum þegar við brúum bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla,“ bætir Dagur við.

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2019

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert