Skjóta fast á Sorpu vegna plastpoka

Drengur á Filippseyjum umkringdur plastpokum og rusli úr hafinu. Evrópusambandið …
Drengur á Filippseyjum umkringdur plastpokum og rusli úr hafinu. Evrópusambandið hyggst banna notkun á einnota plasti frá og með 2021 og samráðsvettvangur umhverfisráðuneytis hefur lagt til að bann við einnota plastpokum taki gildi hér á landi á sama tíma. Mynd úr safni. AFP

Íslenska gámafélagið skýtur föstum skotum að keppinautnum Sorpu í myndbandi sem það birti á facebooksíðu sinni í gær vegna gagnrýni þess síðarnefna á tillögur samráðsvettvangs um aðgerðaáætlun í plastmálefnum um að notkun einnota plastpoka verði bönnuð hér á landi frá og með árinu 2021.  

Myndbandið nefnist „Bönnum plastið!“ og hefur fengið töluvert áhorf frá því það var birt, en þar eru talin upp nokkur rök fyrir skaðseminni sem fylgi einnota plastumbúðum.

„Plastið hverfur ekki, það brotnar ekki niður og umbreytist í lífrænan úrgang. Það verður bara minna og minna,“ segir í myndbandinu og bent er á að það geti valdið verulegum vandamálum í starfsemi lífvera rati það sem örplast inn í fæðukeðjuna.

„Hagsmunir en ekki hugsjónir hvetja suma til að leggjast gegn minnkun notkunar á plastpokum,“ segir því næst í myndbandinu með mynd af höfuðstöðvum Sorpu og tilvitnun í orð framkvæmdastjóra fyrirtækisins, sem sagði í umsögn sinni um fyrirhugað plastbann að Sorpa sæi „ekki rökin fyrir banni við notkun einnota haldapoka úr plasti“.

Segir Gámafélagið í umsögninni vera stuðst við erlendar rannsóknir til að mála upp veruleika þar sem einnota plastnotkun sé af hinu góða.

Plastmengun sé hins vegar mikið vandamál hér á landi eins og annars staðar. „Það er því fróðlegt að sjá hver vilji vernda plastið,“ segir í myndbandinu og enn á ný er birt mynd af Sorpu.

Bendir Gámafélagið því næst á að erlendu rannsóknirnar sem Sorpa vísi til í rökum sínum séu miðaðar við allt aðrar aðstæður en eigi við hér á landi. Þar sé gert ráð fyrir að allir plastpokarnir endi í brennslu og þeir þar notaðir til rafmagnsframleiðslu í stað olíu eða kola. Slíkar aðstæður séu hins vegar ekki fyrir hendi hér og pokarnir endi því flestir í besta falli í urðun eða úti í náttúrunni. 

Evrópusambandið, ýmis önnur ríki og borgir ætli að hætta notkun plastpoka 2021 og Ísland eigi að vera leiðandi í umhverfisvernd, en ekki eftirbátur annarra.

Gámafélagið setji því umhverfið í fyrsta sæti og styðji tillögur um að banna einnota plast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert