Þingmenn efast um orkupakkann

Páll Magnússon, Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson, Jón Gunnarsson, Bjarni …
Páll Magnússon, Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson, Jón Gunnarsson, Bjarni Benediktsson og Njáll Trausti Friðbertsson. Samsett mynd

Sex þingmenn Sjálfstæðisflokksins að minnsta kosti hafa opinberlega viðrað miklar efasemdir á undanförnum mánuðum um það að rétt sé að Alþingi samþykki þriðja orkupakka Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn, eða um þriðjungur þingflokks sjálfstæðismanna. Til stendur að leggja fram þingmál um samþykkt pakkans í febrúar.

Þingmennirnir eru Páll Magnússon, Jón Gunnarsson, Brynjar Níelsson, Njáll Trausti Friðbertsson og Óli Björn Kárason en að auki hefur Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fjallað um málið með gagnrýnum hætti og sagt að orkumál Íslendinga ættu ekki að vera málaflokkur sem heyrði undir EES-samninginn.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins í mars ályktaði gegn því að frekara vald yfir íslenskum orkumálum væri framselt úr landi og skoðanakönnun sem gerð var fyrir Heimssýn og birt í vor sýndi yfir 91,6% stuðningsmanna flokksins á sömu skoðun en 2,8% ósammála.

Fjölmennur fundur var haldinn í Valhöll, höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins, í september af nokkrum hverfafélögum flokksins í Reykjavík þar sem samþykkt var einróma ályktun með áskorun á flokksforystuna um að hafna innleiðingu þriðja orkupakkans.

Hins vegar hafa bæði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, sem eru einnig þingmenn Sjálfstæðisflokksins, talað fyrir því að þriðji orkupakkinn verði samþykktur.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórdís hefur þó ekki útilokað að til þess gæti komið að Ísland beitti neitunarvaldi sínu samkvæmt EES-samningnum gegn innleiðingu þriðja orkupakkans (málið heyrir undir ráðuneyti þeirra Guðlaugs Þórs) en sagt að það gæti haft afleiðingar.

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, sagði í útvarpsþættinum Þingvellir á útvarpsstöðinni K100 á sunnudaginn að hann teldi að uppreisn yrði í Sjálfstæðisflokknum ef stjórnvöld reyndu að keyra þriðja orkupakkann í gegnum þingið.

Spurði Styrmir Pál Magnússon, sem sá um stjórn þáttarins, hvort hann ætlaði að samþykkja þriðja orkupakkann þegar það kæmi inn á Alþingi og svaraði Páll því til að ef hann ætti að greiða atkvæði um málið núna myndi hann hafna samþykkt orkupakkans.

Jón Gunnarsson kallaði eftir því í aðsendri grein í Morgunblaðinu í lok nóvember að farið yrði fram á undanþágu fyrir Ísland frá orkulöggjöf Evrópusambandsins enda ætti hún ekki við aðstæður hér á landi. Eftir á að hyggja hefði ekki átt að samþykkja fyrri orkupakka.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Brynjar Níelsson hafði áður í útvarpsþættinum Þingvöllum 11. nóvember sagt að hann vildi í lengstu lög komast hjá því að innleiða þriðja orkupakkann. Vandinn við EES-samninginn væri að alltaf væri gengið lengra og lengra og krafist sífellt meira framsals valds.

„Þetta er vandinn við þennan samning. Það sem gerist alltaf er að það er alltaf gengið lengra og lengra. Framsalið á valdinu verður alltaf meira og meira. Þá er spurningin: Eigum við alltaf að teygja okkur lengra í þessa átt eða eigum við að spyrna niður fæti og segja: „Þetta er orðið eitthvað of mikið“?“ sagði Brynjar ennfremur.

Njáll Trausti sagði til dæmis við norska fjölmiðla fyrr á árinu að miklar áhyggjur væru innan Sjálfstæðisflokksins vegna þriðja orkupakkans. Fagnaði hann ennfremur skoðanakönnuninni í vor. Málið snerist um að þjóðin færi sjálf með stjórn orkumála sinna.

Óli Björn ræddi málið að sama skapi við norska fjölmiðla á árinu og sagði miklar áhyggjur af málinu á Íslandi enda ógnaði það sjálfstæði þjóðarinnar. Miðað við þá vitneskju sem hann hefði um málið myndi hann ekki greiða atkvæði með samþykkt þess.

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins.
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Miklar áhyggjur eru af regluverki Evrópusambandsins um orkumál á Íslandi. Ekki aðeins í okkar flokki heldur í næstum öllum stjórnmálaflokkunum fyrir utan þá tvo flokka sem styðja inn­göngu í Evrópusambandið, sósíaldemókratana og Viðreisn.“

Bjarni Benediktsson varpaði fram þeirri spurningu á Alþingi í byrjun ársins varðandi þriðja orkupakkann hvað Íslendingar hefðu með það að gera að ræða orkumál sín við Evrópusambandið úti í Brussel. Mál sem tengdust á engan hátt orkumarkaði landsins.

„Mér finnst vera svo mikið grundvallaratriði hér að við skilgreinum hvað séu innrimarkaðsmál sem við viljum sinna sérstaklega undir EES-samningnum og hvað eru mál sem tengjast ekki beint innri markaðinum. Og hérna erum við með kristaltært dæmi um það. Þetta er raforkumál Íslands. Þetta er ekki innrimarkaðsmál.“

Þá hafa efasemdaraddir heyrst víðar. Bæði Framsóknarflokkurinn og Miðflokkurinn hafa ályktað gegn því að þriðji orkupakki Evrópusambandsins verði innleiddur hér á landi og slíkar raddir hafa einnig heyrst innan Flokks fólksins og Vinstri-grænna en síðastnefndi flokkurinn lagðist gegn fyrsta og öðrum orkupakka sambandsins á sínum tíma.

Skoðanakönnunin sem gerð var síðasta vor sýndi mikinn meirihluta stuðningsmanna allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi andvíga því að framselja vald yfir íslenskum orkumálum til evrópskra stofnana. Mest reyndist andstaðan meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri-grænna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert