Tveir fluttir á slysadeild

Tveir voru fluttir á slysadeild með minni háttar meiðsli eftir umferðaróhapp í morgun. Að sögn varðstjóra í slökkviliði höfuðborgarsvæðisins er um minni háttar meiðsli að ræða. 

Óhappið varð á sjötta tímanum í morgun en ökumaðurinn missti stjórn á bifreiðinni í hálku við Arnarnesbrúna og hafnaði á ljósastaur.

Vegagerðin bendir á að það séu hálkublettir á flestum leiðum á höfuðborgarsvæðinu og eins eru hálkublettir á Reykjanesbraut og Kjalarnesi, hálka á Hellisheiði en annars víða snjóþekja. Snjóþekja er mjög víða á Suðurlandi og einhver éljagangur. 

Fróðárheiði ófær

Vesturland: Þar er snjóþekja á flestum leiðum en ófært á Fróðárheiði. Þæfingsfærð er á Vatnaleið en unnið að hreinsun.  

Vestfirðir: Hálka eða snjóþekja er á flestum vegum. Þungfært er frá Drangsnesi yfir í Bjarnarfjörð og ófært norður í Árneshrepp.

Norðurland: Víða er snjóþekja eða hálka á vegum en þæfingsfærð er úr Hrútafirði og austur að Víðidal og einnig þæfingsfærð á Vatnsskarði en unnið að hreinsun.  

Norðausturland: Verið er að kanna aðstæður á flestum leiðum. Dettifossvegur er lokaður.

Austurland: Nú er verið að kanna aðstæður á vegum og koma nánari upplýsingar fljótlega. Lokað er um Breiðdalsheiði og Öxi. 

Suðausturland: Greiðfært er frá Reyðarfirði að Hvalnesi en þar eru hálkublettir vestur að Skeiðarársandi og snjóþekja í Eldhrauni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert