Ýmsum tillögum Sjálfstæðisflokks hafnað

Hildur Björnsdóttir og Eyþór Arnalds, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Björnsdóttir og Eyþór Arnalds, borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

Tillögum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um hagræðingu, lækkun skulda og aukinn sveigjanleika í þjónustu var hafnað í umræðum um fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2019, að því er fram kemur í Facebook-færslu Eyþórs Arnalds.

Auk þess var fjallað um fimm ára fjármálaáætlun borgarinnar en Eyþór segir að samkvæmt henni sé gert ráð fyrir 40 milljörðum hærri skuldum og skuldbindingum en í áætlun sem samþykkt var fyrir ári.

Hér er um umtalsverðar fjárhæðir að ræða sem sýnir að nýjum meirihluta hefur mistekist að efna kosningaloforð sín um lækkun skulda,“ kemur fram í bókun Sjálfstæðisflokksins vegna niðurstöðu fundar í borgarstjórn.

Þar kemur enn fremur fram að það veki athygli að fjárhagsáætlun fyrir næsta ári geri ráð fyrir 16 milljörðum lakari rekstrarniðurstöðu en áætlanir gerðu ráð fyrir í fyrra. Jafnframt verði viðbótarvaxtagjöld samkvæmt fimm ára áætlun átta milljörðum hærri en áður var ráðgert.

Þetta þýðir að vaxtakostnaður hækkar frá síðustu áætlun um heila 2 milljarða á ári. Fyrir þá upphæð væri hægt að byggja meira en 11 sex deilda leikskóla í hæsta gæðaflokki; gæðaflokki A sem myndu rúma um 1.400 börn,“ kemur fram í bókuninni.

Auk þess væri hægt að létta skattbyrði á borgarbúa um 60 þúsund krónur á hvert heimili í borginni árlega. Í bókuninni er lýst áhyggjum yfir því að útsvar verði áfram í hámarki og að fasteignagjöld á atvinnuhúsnæði hækki um rúm 16% í krónum talið.

Ekki er nein hagræðing á rekstrarkostnaði, þvert á móti hækkun umfram verðlag. Ekki er tekið á strúktúrvandanum í góðæri. Þetta þýðir að það verður mun erfiðara að mæta áföllum. Rekstrarafgangur upp á 3,6 milljarða er ósjálfbær m.v. þau ófyrirséðu og stóru verkefni sem blasa við á árinu 2019,“ segir í bókun Sjálfstæðisflokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert