Gæta hagsmuna Íslands á loftslagsráðstefnunni

Þátttakendur í loftslagsráðstefnunni í Póllandi. Yfir 20.000 manns eru nú …
Þátttakendur í loftslagsráðstefnunni í Póllandi. Yfir 20.000 manns eru nú staddir í Katowice vegna ráðstefnunnar. AFP

Mikil bjartsýni ríkti  og hugur var  í mönnum þegar Parísarsamkomulagið var undirritað í desember 2015. Nokkuð hefur dofnað yfir ákafanum síðan og í aðdrag­anda loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem nú fer fram í Katowice í Póllandi hafa ýmsar rannsóknir verið birtar sem sýnt hafa fram á  geig­væn­lega þróun í lofts­lags­mál­um.

Í skýrslu sem Institu­te of In­ternati­onal and Europe­an Affairs (IIEA) kynnti við upphaf loftslagsráðstefnunnar kemur fram að orð og gjörðir Don­ald Trumps Banda­ríkja­for­seta dragi úr áherslum alþjóðasam­fé­lags­ins á að minnka los­un kolt­ví­sýr­ings, en Trump sagði Bandaríkin frá samningnum í fyrra. Hafa þannig til að mynda Rússland, Tyrkland, Ástr­al­ía og Bras­il­ía nefnt for­dæmi Trump sem ástæðu fyr­ir að tak­marka aðgerðir sín­ar gegn loft­slags­breyt­ing­um.

Helga Barðadótt­ir, sér­fræðing­ur í um­hverf­is­ráðuneyt­inu, er stödd á loftslagsráðstefnu Sameinuðu …
Helga Barðadótt­ir, sér­fræðing­ur í um­hverf­is­ráðuneyt­inu, er stödd á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Hún segir fundargesti tala um mikilvægi þess að ná samningum. Ljósmynd/Aðsend

Eru enn aðilar að samningnum

Helga Barðadótt­ir, sér­fræðing­ur í um­hverf­is­ráðuneyt­inu, sem er stödd á loftslagsráðstefnunni segir vissulega ýmislegt vera í gangi. „Þessi ríki  eru þó enn þá aðilar að samningnum og hann tekur ekki gildi fyrr en 2021, það verður að hafa það í huga,“ segir hún og kveður stemninguna á loftslagsráðstefnunni vera nokkuð góða. „Já það tala allir um mikilvægi þess að ná samningum. Það eru þó ólík sjónarmið uppi og menn eru bara að vinna í því að koma sér saman um hvar þeir geta náð saman.“

Flest 197 aðildarríkja loftslagssamningsins eiga fulltrúa á ráðstefnunni og fjölga mun töluvert í hópi ráðstefnugesta í næstu viku, en þá hefst ráðherrahluti fundarins. Umhverfisráðherra Íslands, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, mun þá mæta utan ásamt fleiri íslenskum fulltrúum stjórnvalda, Reykjavíkurborgar, félagasamtaka, Landsvirkjunar og Carbon Recycling International.

Gæta hagsmuna Íslands

Þessa dagana er verið að ganga frá regluverki varðandi innleiðingu Parísarsamningsins, m.a. fyrirkomulag  loftslagsbókhalds og hvernig halda eigi utan um losunartölur svo fylgjast megi með samdrætti og þeim markmiðum sem menn hafa sett sér.

Þriggja manna opinber sendinefnd tekur þátt í fundinum fyrir Íslands hönd. „Við erum með litla sendinefnd og vinnan sem fer fram hér núna á sér stað í mjög mörgum vinnuhópum, það er því útilokað að við náum að sitja alla fundi,“ segir Helga. 

Það geta verið mjög margir fundir í gangi á sama tíma og því ómögulegt líkt og áður sagði að sendinefndin nái að sitja þá alla. „Við samt tökum þátt,“ segir hún. „Við erum ekki innstu koppar í búri í þessari tæknilegu vinnu, en við pössum upp á að fylgjast vel með og að þar sé ekkert sem við treystum okkur ekki til að innleiða.

Vinna undirnefnda hófst í gær og verða samningafundir í gangi út vikuna. „Það er svo lagt upp með að það liggi fyrir drög að niðurstöðu á laugardag,“ segir Helga. Ekkert sé þó hægt að segja fyrir um það að svo stöddu hver niðurstaðan verði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert