Boðuðu Sigmund ekki á fundinn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Formenn annarra stjórnarandstöðuflokka boðuðu ekki Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, á samráðsfund flokkanna á þriðjudaginn, en formennirnir funda reglulega til þess að bera saman bækur sínar. Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segir í samtali við mbl.is að þessi ákvörðun hafi verið tekin á þriðjudaginn en ekkert sé hins vegar ákveðið með framhaldið í þeim efnum.

„Framhaldið verður síðan bara að koma í ljós,“ segir Logi Már en Ríkisútvarpið fjallaði um málið í kvöldfréttum sínum. Formennirnir hafi hreinlega ekki treyst sér til þess að boða Sigmund á fundinn, en ástæðan sé Klaustursmálið svonefnt. Spurður um stöðu tveggja þingmanna sem áður voru í Flokki fólksins og voru einnig þátttakendur í málinu segist Logi einfaldlega ekki vita hver staða þeirra nákvæmlega sé.

Þingmennirnir verði að líta í eigin barm

Logi segir aðspurður að hann sé sammála Helgu Völu Helgadóttur, þingmanni Samfylkingarinnar, um að það sé spurning hvort umræddir þingmenn geti áfram sinnt störfum sínum. Hins vegar snúist málið ekki um það hvað aðrir þingmenn geri heldur fyrst og fremst hvað þingmennirnir sem í hlut áttu geri. Hvort þeir telji sig geta sinnt störfum sínum.

„Það er auðvitað eðlilegast að þetta sé háð þeirra ákvörðun og félaga þeirra. Hver og einn þingmaður verður bara að líta í eigin barm. En það má snúa spurningunni við og spyrja sig: Verða þau ekki bara að velta því fyrir sér hvort að þau telji sig geta rækt vinnu sína?“ Orð þingmannanna hafi þannig beinst að fólki sem þeir þurfi að vinna með.

„Það er enginn sem græðir á þessu ástandi“

Spurður hvort stjórnarandstaðan sé ekki klofin í kjölfar málsins, níu þingmenn Miðflokksins og fyrrverandi þingmenn Flokks fólksins annars vegar og hins vegar 19 þingmenn Samfylkingarinnar, Pírata, Viðreisnar og Flokks fólksins, segir Logi að það hafi fyrir það fyrsta alltaf blasað við að stjórnarandstaðan væri mjög ólík innbyrðis.

„Það breytist ekkert hvað það varðar. Það eru sárafá mál sem stjórnarandstaðan hefur getað komið fram sameinuð í. En við höfum þó getað sett pressu á stjórnina í einstökum málum og það mun hugsanlega breytast en ég held að á endanum sé þetta bara vont fyrir alla. Það er enginn sem græðir á þessu ástandi. Þetta er bara óþægilegt og vont ástand sem þarf einhvern veginn að leysa.“

Mjög erfitt að mæta í vinnuna þessa dagana

Hins vegar gæti þetta orðið til þess að sá hluti stjórnarandstöðunnar sem geti unnið saman geti verið tiltölulega samstíga í ýmsum málum. „En það er bara ómögulegt að segja. Þetta er bara flókin staða og erfið. Það er mjög erfitt bara að mæta í vinnuna núna þessa dagana. En við verðum að gera það. Það er fullt af málum sem skipta máli.“

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert