Annríki vegna ófærðar í Víkurskarði

Ófært er um Víkurskarð.
Ófært er um Víkurskarð. Skjáskot/Vegagerðin

Töluvert annríki var hjá lögreglunni á Akureyri í gærkvöldi vegna ófærðar í Víkurskarði og þurftu bæði björgunarsveitir og stórvirkar vinnuvélar að koma til aðstoðar. Lokað var svo fyrir umferð um skarðið rétt fyrir miðnætti, en töluvert mikil ofankoma var fyrir norðan í gær og nótt.

Fyrsta útkallið barst á áttunda tímanum í gærkvöldi og komu björgunarsveitir þá ökumönnum sem lentu í vandræðum í Víkurskarðinu til aðstoðar. Síðar um kvöldið sátu svo flutningabílar þar fastir og þurfti þá að kalla út stórvirkar vinnuvélar til að losa þá.

Það var svo á tólfta tímanum sem ekið var aftan á bíl sem lögregla var að fylgja niður úr skarðinu. Sá bílstjóri reyndist vera undir áhrifum áfengis og var hann sviptur ökuréttinum. Nokkrar skemmdir urðu á bílunum, en engin meiðsl urðu á fólki.

Víkurskarðinu var svo lokað fyrir umferð vegna ófærðar rétt fyrir miðnætti og var enn lokað nú í morgun að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar. 

Að sögn lögreglunnar á Akureyri er færðin innanbæjar hins vegar í lagi. Hált er þó og háir snjóruðningar byrgja útsýni, þannig að lögregla hvetur menn til að fara varlega.

Færð á vegum er annars sem segir:

Siglufjarðarvegur: Óvissustig vegna sjófljóðahættu.

Suðurland: Hálkublettir eru á milli Selfoss og Hvolsvallar og á Biskupstungnabraut eins eru hálkublettir á Reynisfjalli og í Mýrdal.

Suðvesturland: Hálkublettir eru á Hellisheiði, Sandskeiði og í Þrengslum en annars er víðast greiðfært.

Vesturland: Hálka eða snjóþekja á flestum fjallvegum og á láglendi.

Vestfirðir: Hálka eða hálkublettir eru á flestum vegum og skafrenningur á fjallvegum. Ófært er á Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði.

Norðurland: Ófært er á Öxnadalsheiði og lokað á Víkurskarði. Þungfært er í Öxnadal. Hálka er á Þverárfjalli og hálka eða hálkublettir eru á vegum í Skagafirði en snjóþekja og éljagangur í Eyjafirði. Óveður er í Héðinsfirði og á Siglufjarðarvegi. 

Norðausturland: Lokað er á Hófaskarði og Hálsum. Flughálka er norðan við Bakkafjörð annars er hálka eða snjóþekja á Norðausturvegi (85) og Aðaldalsvegi. Víða er snjókoma en stórhríð er á Sandvíkurheiði.

Austurland: Þæfingur er frá Fellabæ og upp á Heiðarenda. Hálka eða snjóþekja er á vegum. Ófært er á Vatnsskarði eystra og Fjarðarheiði.

Suðausturland: Greiðfært er frá Höfn í Gígjukvísl en hálka þar fyrir vestan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert