Íslenska jólabjórnum vel tekið í Færeyjum

Sunneva Eysturstein rekur Bjórkovan og Sirkus í Þórshöfn.
Sunneva Eysturstein rekur Bjórkovan og Sirkus í Þórshöfn. Ljósmynd/Finnur Justinussen

„Þetta var frábær helgi og við þurftum meira að segja að bæta við aukaviðburði,“ segir Sunneva Háberg Eysturstein, veitingakona í Þórshöfn í Færeyjum.

Sunneva er framkvæmdastjóri Bjórkovans og Sirkuss og á fyrrnefnda staðnum var haldin kynning á jólabjórum frá íslenska brugghúsinu Borg á dögunum. Bruggmeistari Borgar flaug út til Færeyja og hitti bjóráhugafólk þar, sem lét vel af heimsókninni.

Parað við færeyska osta

„Við höfum verið með nokkrar svona bjórsmakkanir síðustu tvö árin og núna komu þeir frá Borg með jólabjórstegundirnar sínar fjórar. Þeir héldu kynningu og svo vorum við að leika okkur að því að para þá við færeyska osta og súkkulaði auk súkkulaðis frá Omnom,“ segir Sunneva.

„Fólk sýnir þessum kynningum mikinn áhuga og það er alltaf fullsetið. Núna þurftum við að vera með aukaviðburð fyrir fólkið sem vinnur í ríkinu. Þau voru með jólapartí um kvöldið en vildu koma og ákváðu því að koma fyrir partíið. Ég kann að meta það að starfsfólkið í ríkinu hafi áhuga og metnað til að kynna sér svona vöru. Það er gott fyrir bjórmenninguna. Þau eru líka með gott úrval í ríkinu hér og standa sig vel í að leita að besta bjórnum.“

Breyttu bjórmenningunni

Sunnevea rekur hinn fornfræga bar Sirkus og Bjórkovin er á fyrstu hæðinni í sama húsi. Bjórkovin var opnaður fyrir tveimur árum og þar er jafnan hægt að fá bjór frá Borg og sérvalinn bjór víða að.

Vel var tekið eftir á kynningu Borgar brugghúss.
Vel var tekið eftir á kynningu Borgar brugghúss. Ljósmynd/Ditte M. Joensen

„Markmiðið var alltaf meðal annars að breyta og bæta bjórmenninguna hér og lagt upp með að vinna sérstaklega að því að kynna kúnnum okkar nýjan og áhugaverðan bjór. Við höfum frá upphafi unnið mikið með Borg brugghúsi og það er alltaf gaman að halda svona viðburði með þeim. Bjórumhverfið hefur breyst gríðarlega síðan við opnuðum. Áhugi og neysla á handverksbjór hefur aukist mikið og er enn á mikilli uppleið. Bjórkovin var fyrsti bjórbarinn í Færeyjum og ári síðar var Mikkeller opnaður. Mikkeller ætlaði að breyta bjórmenningunni hér en við vorum þegar búin að því,“ segir hún í léttum dúr.

Sunneva hefur góð tengsl við Ísland eftir að hafa starfað hér á landi fyrir rúmum áratug. „Ég var dyravörður á Sirkus í gamla daga og bjó á Íslandi í tvö ár. Ég var ekki nema tvítug svo ég lærði mikið og þroskaðist á þessum tíma. Þetta var mjög skemmtilegt og ég kynntist mörgum. Það er líka ástæðan fyrir því að ég fékk að opna Sirkus hér í Færeyjum. Sirkus var lokað árið 2007 á Íslandi en við opnuðum hann aftur í Færeyjum 2009. Staðurinn færði sig á annan stað sem þurfti á honum að halda.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert