Báðir ökumenn fluttir á Landspítala

Annar ökumaðurinn var fluttur með þyrlu á Landspítala. Mynd úr …
Annar ökumaðurinn var fluttur með þyrlu á Landspítala. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Ökumaður annars bílsins sem lenti í árekstri á Gaulverjabæjarvegi laust fyrir klukkan 17 í dag var fluttur á Landspítala með þyrlu Landhelgisgæslunnar, sem lenti þar klukkan rúmlega 18 í kvöld.

Ökumennirnir voru einir í bílunum, en ökumaður hinnar bifreiðarinnar var fluttur á Landspítala með sjúkrabíl.

Hálftími leið frá því útkall barst og þar til slökkviliðsmenn höfðu náð ökumönnunum úr bílunum með klippum og þeir fengu aðhlynningu í sjúkrabílum, að sögn Péturs Péturssonar slökkviliðsstjóra brunavarna Árnessýslu.

Tildrög slyssins liggja ekki fyrir, en bifreiðarnar komu úr gagnstæðri átt. Engin hálka er á svæðinu en Gaulverjabæjarvegur er enn lokaður vegna rannsóknar.

Uppfært kl. 20:19: Búið er að opna veginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert