Fjórtán verkefni tengd hjúkrunarrýmum

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Alma Möller landlæknir.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Alma Möller landlæknir. mbl.is/Eggert

Alls eru fjórtán verkefni í farvatninu á vegum ríkisins tengd hjúkrunarrýmum og eru þau mislangt á veg komin. Þetta segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Hjúkrunarheimili á Seltjarnarnesi verður næst tekið í notkun, eða í janúar. Álitamál hafa verið uppi á milli sveitarfélagsins og ríkisins um hver ber ábyrgðina á því að koma heimilinu í gagnið en að sögn Svandísar verður fundin leið til þess að setja það af stað. Þar verða 40 hjúkrunarrými.

Svandís nefnir að fram hafi komið að rúmlega 50 aldraðir liggi á bráðadeildum Landspítalans. Hún segir ljóst að staðan er krefjandi.

Fundur velferðarnefndar Alþingis var haldinn í morgun til að varpa ljósi á stöðuna. Fundurinn var tvískiptur. Fyrst mættu þangað fulltrúar frá Landspítalanum til að gera grein fyrir því til hvaða úrræða hann hefur gripið til að sinna sínum verkefnum. Í seinni hlutanum mætti Svandís, ásamt landlækni, þar sem farið var yfir þeirra aðkomu að málinu.

Svandís bendir á að núna standi yfir svokölluð hlutaúttekt þar sem embætti landlæknis fer inn á viðkomandi starfsstöð, tekur út stöðuna og skilar frá sér úttektinni til ráðherra. Úttektinni er ekki lokið en að sögn Svandísar er hún í nánum samskiptum við spítalann og embætti landlæknis um þetta mál og fleiri.

Hún nefnir að aðkoma ráðuneytisins snýst um að fara að ráðum landlæknis og í framhaldinu grípa til ráðstafana. Auk vinnu við að koma upp hjúkrunarrýmum segir hún að sjúkrahótelið við Hringbraut komist í gagnið á fyrstu mánuðum næsta árs og einnig stendur til að efla heimahjúkrun, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Loks segir hún mikilvægt að efla mönnun í hjúkrun og hjá sjúkraliðum, sem sé langtímaverkefni.

„Það eru úrræði sem við eigum uppi í erminni til að bregðast við þessum vanda sem hefur verið skilgreindur,“ segir Svandís og bætir við að fundað verði með Landspítalanum og embætti landlæknis á morgun vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert