Hafarnastofninn hefur styrkst mikið

Konungur íslenskra fugla og tjaldur sjást hér saman á flugi.
Konungur íslenskra fugla og tjaldur sjást hér saman á flugi. mbl.is/Golli

Óvenjumörg ný verpandi hafarnapör fundust á liðnu sumri, að sögn Kristins Hauks Skarphéðinssonar, sviðsstjóra í dýrafræði hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Íslenski arnarstofninn telur nú 82 pör og urpu 53 þeirra í vor og komu upp 39 ungum.

„Við fundum átta ný pör, sem er 10% aukning á verpandi hafarnapörum. Fimm þeirra voru örugglega að verpa í fyrsta sinn. Það hafa aldrei áður fundist svona mörg ný pör,“ sagði Kristinn Haukur.

Nýju pörin þéttu varpið á svæðum þar sem hafernir urpu fyrir. Um helmingur þeirra 40 óðala sem ernir hafa byrjað að verpa á frá aldamótum eru þekkt sem forn arnarsetur. Á þessum tíma hófu ernir að nýju varp við Húnaflóa og í sumar voru þar sex pör. Nú verpa um 20 hafarnapör við Faxaflóa en þar hófu þeir aftur varp upp úr 1970. Kristinn Haukur sagði greinilegt að hafarnastofninn hefði mikið styrkst. Sú þróun hefði staðið alveg frá því að bannað var að bera út eitur fyrir refi árið 1964, en eitrið varð mörgum haförnum að aldurtila. Stökkið í varpinu í sumar var óvenjustórt, að sögn Kristins Hauks. Hann sagði að hafernir væru farnir að verpa á óvenjulegum stöðum. Sum hreiðranna væru rétt hjá sveitabæjum og heimilisfólk áttaði sig jafnvel ekkert á því. Sumir ernir væru orðnir óvenjuspakir og óttalausir við mannabyggð.

Ekki hefur orðið vart við arnavarp við Þingvallavatn. Þar voru áður þrír varpstaðir og einn í Arnarhólma í Álftavatni. Fullorðnir ernir hafa sést á þessum slóðum og um allt Suðurland undanfarna vetur og jafnvel nokkrir. Eitt arnapar verpti eitt vor á óðali á Suðurlandi fyrir nokkuð mörgum árum en hvarf svo árið eftir.

Ógna líklega ekki örnunum

Áform um að reisa 35 stórar vindmyllur á Garpsdalsfjalli norðan við Gilsfjörð hafa verið í umræðunni. Beggja vegna þar við verpa hafernir. Kristinn Haukur kvaðst ekki hafa skoðað málið nákvæmlega en við fyrstu sýn sýndist honum sem ekki þyrfti að hafa áhyggjur af að örnum myndi stafa mikil hætta af þessu. Staðsetningin væri uppi á fjalli og ólíklegt að þar væri mikil umferð af örnum eða öðrum fuglum sem máli skipti. Arnapör verpi þarna sitt hvorum megin við en á þessu svæði séu þeir ekki mikið. Þeir velji frekar að svífa um dalina.

„Almennt stafar fuglum hætta af vindmyllum og ernir eru þekktir fyrir að vera fórnarlömb þeirra því þeir svífa svo mikið,“ sagði Kristinn Haukur. Hann sagði að menn hefðu áhyggjur af umferð gæsa við Búrfellslund og það hefði verið kortlagt á sínum tíma. Hins vegar hefðu verið settar upp tvær vindmyllur í Þykkvabæ, sem væri dæmigerður fyrir stað þar sem slík starfsemi ætti ekki heima. Þar væri gríðarlega mikil umferð af farfuglum, álftum og gæsum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert