Innleiða samræmt atvikaskráningakerfi

Alma D. Möller landlæknir og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra undirrituðu áætlun …
Alma D. Möller landlæknir og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra undirrituðu áætlun um gæðaþróun í heilbrigðisþjónustu 2019-2030 í húsakynnum embættis landlæknis í dag. mbl.is/Eggert

Innleiðing á nýju atvikaskráningakerfi á landsvísu mun gera stjórnendum embættis landlæknis kleift að fylgjast með umfangi, tíðni og úrvinnslu atvika sem eiga sér stað á viðkomandi stofnun. Innleiðingin hófst síðla á þessu ári og áætlað er að henni ljúki á næstu tveimur árum.

Þetta er meðal þess sem kom fram við kynningu á áætlun um gæðaþróun í heilbrigðisþjónustu 2019-2030 sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Alma D. Möller landlæknir kynntu og undirrituðu í dag.

Frá því að rafræn atvikaskráning var tekin upp árið 2004 hafa nokkur rafræn kerfi verið notuð til skráningar og úrvinnslu atvika og einnig skráð á sérstök eyðublöð. Með atviki er átt við þegar eitthvað fer úrskeiðis í heilbrigðisþjónustunni. 

„Langoftast er það eitthvað í ferlunum sem að bregst og kannski eitthvað samspil við mannlega þætti. En þá er svo mikilvægt að rýna atvikin og greina hvað fór úrskeiðis til að laga, ef þetta eru ferlar,“ segir Alma. Kerfið á ekki að einblína á hlut einstaklingsins heldur hlut kerfisins. 

Skylt að skrá atvik í kerfið

Kerfið var keypt fyrr á þessu ári frá breska fyrirtækinu Datix. Fjórar einingar innan heilbrigðiskerfisins eru með kerfið í prófun en Alma segir að kerfið verði innleitt að fullu eftir um það bil tvö ár. „Það er gríðarlega umfangsmikið verkefni að innleiða svona kerfi á landsvísu. Þetta er svo viðamikið og margar einingar, allt heilbrigðiskerfið.“

Að innleiðingu lokinni verður öllum þeim sem veita heilbrigðisþjónustu skylt að skrá atvik sem koma upp í þetta kerfi.

Svandís segir innleiðingu kerfisins mjög mikilvæga til að skapa heildarsýn í heilbrigðiskerfinu. „Við sjáum að það kemur ítrekað fram að við þurfum að bæta skráningu, utanumhald og heildarsýn yfir okkar heilbrigðiskerfi og þetta er einn angi af því. Til þess að við getum bætt heilbrigðisþjónustu þurfum við að vita hvað fer úrskeiðis og greina það hvað veldur því að eitthvað fer úrskeiðis og fara í saumana á hverju atviki fyrir sig til þess að við getum lært af því, breytt okkar áætlunum og lært af því.“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir innleiðingu samræmds atvikaskráningakerfis mjög mikilvæga til …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir innleiðingu samræmds atvikaskráningakerfis mjög mikilvæga til að skapa heildarsýn í heilbrigðiskerfinu. mbl.is/Eggert

Einn af hornsteinum heilbrigðisþjónustunnar

Áætlun um gæðaþróun er unnin í samræmi við 11. grein laga um landlækni og lýðheilsu og er ætlað að efla gæði og öryggi heilbrigðisþjónustunnar og stuðla að þróun hennar.

Markmið hennar er að notendur fái heilbrigðisþjónustu sem eykur líkur á betri heilsu og auknum lífsgæðum, er samfelld og samhæfð, örugg, rétt tímasett, skilvirk, byggð á jafnræði, notendamiðuð og árangursrík.

Svandís segir áætlunina vera einn af hornsteinum heilbrigðisþjónustunnar, ásamt Heilbrigðisstefnu til ársins 2030, sem er nú í umsagnarferli. Alma segir að mikilvægt sé að leggja áherslu á eflingu gæða, öryggis og umbótastarfs í heilbrigðisþjónustu. „Það er ekki einungis siðferðilega rétt heldur sýna rannsóknir að slíkt er beinlínis fjárhagslega hagkvæmt.“

Eftirlit með gæðum og öryggi

Í áætluninni má finna leiðbeiningar um verklag við veitingu heilbrigðisþjónustu. Þar kemur einnig fram hvernig heilbrigðisstofnanir geta stöðugt fylgst með gæðum og öryggi þjónustunnar og brugðist við með umbótastarfi þegar þess gerist þörf.

Áætlunin byggir á fjórum lykilþáttum um verklag: Umbótaferli og stjórnskipulagi, gæðavísum, skráningu og úrvinnslu atvika auk þjónustukannana. Þá skila veitendur heilbrigðisþjónustu árlega gæðauppgjöri til embættis landlæknis og Sjúkratrygginga Íslands eftir atvikum, sem byggir á lykilþáttunum og er ætlað að sýna árangur hvað snertir gæði og öryggi þjónustunnar.

Tvenns konar gæðavísar

Í áætluninni eru tvenns konar gæðavísar notaðir, annars vegar landsgæðavísir, sem ákvarðaður er fyrir allt landið af embætti landlæknis og gefur kost á samanburði milli sams konar heilbrigðisstofnana og heilbrigðisþjónustu, og hins vegar valgæðavísar, sem taka mið af þeirri þjónustu sem þeir veita og eru mælikvarði á gæði þjónustunnar út frá sjónarhóli notenda, heilbrigðisstarfsmanna og stjórnenda.

Þjónustukannanir einu sinni á ári

Þá telur embætti landlæknis mikilvægt að veitendur heilbrigðisþjónustu afli með reglubundnum hætti upplýsinga frá notendum þjónustunnar um upplifun þeirra á veittri þjónustu. Í áætluninni er ætlast til að veitendur heilbrigðisþjónustu geri þjónustukannanir ekki sjaldnar en einu sinni á ári og nýti niðurstöðurnar í umbótastarfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert