Klæddist þýfinu í seinna innbrotinu

Tilkynnt var um innbrot í tvær íbúðir í Vesturbænum á ellefta tímanum í gærkvöldi. Farið hafði verið inn í íbúðirnar, rótað þar og stolið munum.

Innbrotin uppgötvuðust er húsráðendur komu heim og var þá haft samband við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, sem er nú með málin til rannsóknar.

Þá bárust lögreglu einnig tilkynningar um innbrot í tvo bíla í miðbænum og virðist sami einstaklingur hafa verið að verki í bæði skipti. Tilkynnt var um fyrra innbrotið rúmlega ellefu í gærkvöldi, en þá kom bíleigandi að þjófnum í bíl sínum. Þjófurinn, sem var í jakka merktum fyrirtæki, forðaði sér hlaupandi á brott.

Önnur tilkynning um innbrot í bíl barst svo klukkan 00:16 í nótt. Búið var að brjóta rúðu í bílnum og úr honum hafði verið stolið jakka merktum fyrirtæki, sem svarar til lýsingar á jakkanum sem þjófurinn í fyrrnefnda innbrotinu klæddist, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert