„Mig langar til að gera grín að þessu“

Kári var ómyrkur í máli við opnun jáeindaskannans en hann …
Kári var ómyrkur í máli við opnun jáeindaskannans en hann hefur gagnrýnt seinagang verkefnisins. mbl.is/Eggert

Jáeindaskanninn á Landspítalanum var opnaður formlega í dag. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sem hefur gagnrýnt seinagang verkefnisins harðlega, uppskar blendin viðbrögð þegar hann hóf stutta tölu sína á þessum orðum:

„Ég ætti að öllum líkindum að reyna að hemja mig og þegja vegna þess að mig langar afskaplega til þess að gera grín að þessu öllu saman, til dæmis langaði mig til þess að segja að það hefði verið við hæfi að bjóða hingað þjóðminjaverði, þar sem tækið er orðið svo gamalt, það er svo langt síðan það var keypt.“

Þetta sagði Kári með bros á vör en ítrekaði svo að honum þætti þetta ekkert fyndið mál. Hann hefði þó eftir allt skilning á því, hversu flókið verkefni það er að koma á fót eins þróaðri tækni og jáeindaskanninn er, ekki aðeins fyrir Landspítalann heldur fyrir ýmsar aðrar stofnanir, eins og Lyfjastofnun.

„Eitt er víst að tækið er nú í höndunum á mjög góðu fólki og ég held að það hljóti að gera þetta heilbrigðiskerfi okkar örlítið betra,“ sagði Kári.

„Þessi hrokafulli heilbrigðismálaráðherra“

Kári lauk ræðu sinni á því að hvetja menn til að taka höndum saman við að koma stjórnvöldum í skilning um að taka verði góðum rekstri heilbrigðiskerfis alvarlega sem verkefni. Fjarvera Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á þessari athöfn sagði hann að væri lýsandi fyrir það hversu mikið verk væri fyrir höndum í þeim efnum.

Blaðamaður mbl.is náði tali af Kára eftir ræðuna. Spurður hvort hann saknaði þess að heilbrigðisráðherra mæti á fund sem þennan: „Ég get ekki sagt að ég felli tár af söknuði, en mér finnst það bara benda til þess að þessi hrokafulli heilbrigðismálaráðherra hafi ekki alveg nægilega mikil tengsl við það heilbrigðiskerfi sem hún á að vera að stjórna.“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagðist í samtali við mbl.is hafa verið á þingflokksfundi þegar þessi opnun fór fram. Frekar vildi hún ekki tjá sig um athugasemdir Kára.

Íslensk erfðagreining lagði Landspítalanum til rúmar 700 milljónir króna til að koma sér upp jáeindaskanna. „Mér finnst ekki eðlilegt að við reiknum með því að einkaaðilar kaupi nauðsynleg tæki í opinbert heilbrigðiskerfi. Tæki sem þetta er dæmi um það,“ sagði Kári. „Við hljótum að gera þá kröfu að almennt heilbrigðiskerfi standist kröfur nútímalæknavísinda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert