Ómerktir ofnæmisvaldar í sósu

Varan hefur verið innkölluð.
Varan hefur verið innkölluð. Ljósmynd/Matvælastofnun

Matvælastofnun varar neytendur með ofnæmi eða óþol fyrir eggjarauðum, sinnepi, hveiti og/eða selleríi við neyslu á „Ópal heitreyktum laxabita m/muldum pipar“ frá Ópal sjávarfangi.

Sósan sem fylgir laxinum inniheldur ofangreinda ofnæmis- og óþolsvalda en innihald sósunnar er ekki tilgreint á umbúðum. Dreifing/sala á vörunni hefur verið stöðvuð og stendur endurmerking yfir.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Matvælastofnun.

Vörunni hefur verið dreift í verslanir Nettó um allt land, verslanir Hagkaupa á höfuðborgarsvæðinu, 10-11 í Austurstræti, Iceland í Engihjalla og Krambúðina, Firði.

Neytendur með ofnæmi eða óþol fyrir eggjarauðum, sinnepi, hveiti og/eða selleríi geta skilað vörunni til Ópals sjávarfangs gegn endurgjaldi. Nánari upplýsingar veitir Linda í síma 517-6630 / 864-8295.

Varan er skaðlaus þeim sem ekki eru með ofnæmi eða óþol fyrir ofangreindum ofnæmisvöldum, að því er segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert