Vestfirðingur fékk 131 milljón í EuroJackpot

Það var fjölskyldufaðir vestan af fjörðum sem hneppti annan vinning í EuroJackpot síðasta föstudag, rúmlega 131 milljón króna. Maðurinn hafði verið að kaupa jólagjafir í Kringlunni þegar hann keypti miðann í Happahúsinu.

Hann var svo kominn aftur vestur þegar hann áttaði sig á því að hann væri orðinn milljónamæringur og þá var ekkert annað að gera en að drífa sig aftur í höfuðborgina. „Enda miðinn allt of verðmætur til að dinglast í töskunni,“ að því er fram kemur í tilkynningu Íslenskrar getspár sem segir það hafa verið kátan fjölskylduföður sem kom með vinningsmiðann til þeirra.

Vinningurinn mun gagnast hjónunum vel, en þau eignuðust nýlega sitt annað barn. Óskar starfsfólk Íslenskrar getspár þeim innilega til hamingju með þennan glæsilega vinning, en þetta er langstærsti vinningur í EuroJackpot sem komið hefur á miða keyptan hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert