Hlaut 18 mánaða dóm fyrir nauðgun

Dómarinn mat framburð brotaþola, sem hefur verið stöðugur allt frá …
Dómarinn mat framburð brotaþola, sem hefur verið stöðugur allt frá upphafi, trúverðugan. Hann tók þó tillit til þess að ákærði hefur ekki hlotið refsingu áður og var hæfileg refsing því ákveðin 18 mánaða fangelsi. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Karlmaður var dæmdur í 18 mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudag fyrir nauðgun sem átti sér stað í maí í fyrra, er hann var 17 ára gamall. Stúlkan sem hann braut gegn var þá ólögráða og hafði farið með frænku sinni, kærasta hennar og ákærða í skemmtiferð austur í sveitir. Þegar komið var til baka fór kærastinn heim til sín en hin þrjú fóru heim til frænkunnar. Ákærði bað þá um að fá að gista og fékk leyfi til þess.

Því næst fóru þau öll að sofa í og deildu rúmi frænkunnar. Lá frænkan við rúmstokkinn, þar sem hún þurfti að mæta til vinnu næsta dag, ákærði lá upp við vegginn og brotaþoli á milli þeirra. Öll voru þau klædd bol og nærbuxum.

Brotaþoli kveðst hafa sofnað en vaknað eftir stutta stund og fundið að ákærði var að káfa á henni. Hún kveðst fyrst hafa látið sem hún svæfi, en síðan farið að ýta honum frá og þá hefði hann hætt eftir að hafa hvíslað að henni „fyrirgefðu“ og kysst hana á kinnina. Hún hafi þá sofnað aftur, en vaknað eftir nokkra stund við að ákærði var að draga nærbuxurnar hennar niður og reyna að koma lim sínum inn í leggöng hennar. Hún hafi þá ýtt honum frá sér, en hann hafi haldið henni. Hann hafi tekið utan um kreppta hnefa hennar og tekist að hafa samræði við hana í nokkrar mínútur og gat hún ekki hreyft sig á meðan.  

Frænkan segir í vitnisburði sínum að hún hafi vaknað við það að rúmið hreyfðist fram og aftur og eins hefði hún heyrt stunur. Fyrst hafi hún ekki skilið hvað var að gerast, en er hún sneri sér við sá hún brotaþola liggja þar stjarfa og tár láku úr augum hennar. 

Segist frænkan þá hafa spurt ákærða hvað hann væri að gera og sagt honum að fara. Við það hættu stunurnar og hreyfingin og hann þóttist vera sofandi. Kveðst frænkan hafa haldið utan um brotaþola á meðan þær biðu þess að ákærði sofnaði. Þegar hann var sofnaður byrjaði brotaþoli hins vegar að titra, skjálfa og gráta. Þær hafi því ákveðið að skilja ákærða eftir og fara til kærasta hennar. Er þangað hafi verið komið sendi hún ákærða textaskilaboð og bað hann um að fara, sem hann gerði er hann vaknaði.

Ákærði neitar sök og segir ekkert kynferðislegt hafa gerst milli sín og brotaþola. Hann játar að hafa deilt rúmi með frænkunni og brotaþola en segist hafa verið klæddur síðbuxum, sokkum, bol og hettupeysu og hafa sofið í þeim fatnaði, undir teppi sem hann hafði með sér.

Dómarinn mat hins vegar framburð brotaþola, sem hefur verið stöðugur allt frá upphafi, trúverðugan. Hann tók þó tillit til þess að ákærði hefur ekki hlotið refsingu áður og var hæfileg refsing því ákveðin 18 mánaða fangelsi sem ekki eru skilyrði til að skilorðsbinda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert