Kaupendur vændis virðast ansi víða

Ragna segir raunveruleikann þannig að fjöldi íslenskra kvenna leiðist út …
Ragna segir raunveruleikann þannig að fjöldi íslenskra kvenna leiðist út í vændi. Mynd/Vefur Reykjavíkurborgar

„Þetta er ekki einstakt mál, það er mikilvægt að það komi fram,“ segir Ragna Björg Guðbrandsdóttir, verkefnastjóri hjá Bjarkarhlíð, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, um mál fatlaðrar konu sem talið er að um 50 karlmenn hafi keypt vændi af. Fyrst var greint frá málinu í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi. Mennirnir munu hafa keypt vændi af konunni á nokkurra mánaða tímabili, en hún leitaði til Bjarkarhlíðar í kjölfarið.

Ragna segir í samtali við mbl.is að starfsfólk Bjarkahlíðar hafi áður séð sambærileg mál, svipuð að umfangi. „Bæði hjá fötluðum og ófötluðum konum, yfir lengri tíma. Þessir kaupendur virðast vera ansi víða.“

Ragna segir alveg mega beina athyglinni að því hvar þeir eru í samfélaginu, en um alls konar menn sé að ræða.

Hún segir fatlaðar konur og konur með þroskaskerðingu mun viðkvæmari fyrir ofbeldi en aðra hópa. „Ef einstaklingar hafa verið þolendur ofbeldis í æsku eða kynferðisofbeldis, þá eru þeirra varnir enn minni og sjálfstraust lítið. Ef einhver stingur upp á einhverju svona eða þær lenda í neyð þá virðast þær geta talið sér trú um að þetta geti gengið. En það sem konur lenda oftast í er að þær hreinlega örmagnast í þessum aðstæðum,“ segir Ragna.

„Vændi er mjög eyðileggjandi fyrir þá sem í því lenda. Þetta er auðvitað bara kynferðisofbeldi,“ bætir hún við.

Fjöldi íslenskra kvenna leiðist út í vændi

Ragna segir oft einblínt á að eingöngu erlendar konur séu fórnarlömb mansals og vændis. „Raunveruleikinn er hins vegar þannig að það er gríðarlega mikill fjöldi íslenskra kvenna sem eru í þessum aðstæðum.“

Hún segir mál umræddrar konu líta út fyrir að vera mjög umfangsmikið en tekur þó fram að lögregla eigi eftir að rannsaka það. Málið sé í vinnslu hjá Bjarkarhlíð, en þar starfar lögreglukona.

Aðspurð hvort grunur sé um að þriðji aðili hafi verið milligöngumaður í vændiskaupunum í máli konunnar segist hún ekki geta tjáð sig um það. „Þetta eru svo viðkvæmar upplýsingar og rannsókn þarf að fara í gang.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert