Lægðirnar koma í röðum

Kort/Veðurstofa Íslands

Útlit er fyrir allhvassa eða hvassa suðaustanátt með rigningu og í kvöld og nótt fer miðja lægðar yfir landið. Á morgun nálgast síðan næsta lægð úr suðri. Um helgina geta landsmenn huggað sig við það að veðrið verður heilt yfir rólegra en það hefur verið í vikunni. Þetta er meðal þess sem kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands í morgun.

Gul viðvörun tekur gildi á Norðurlandi eystra og Austurlandi að Glettingi í kvöld og gildir til morguns.

„Í dag er útlit fyrir allhvassa eða hvassa suðaustanátt með rigningu. Búast má við talsverðri úrkomu á suðaustanverðu landinu. Á Norðurlandi verður hins vegar vindur hægari og lítil eða engin rigning. Hlýtt miðað við árstíma, hiti 3 til 9 stig. 
Í kvöld og nótt fer miðja lægðar yfir landið. Þá hvessir úr suðri á austanverðu landinu, en vind lægir vestan til og verður þá um að ræða svokallað svikalogn inni í lægðarmiðjunni.
Á morgun nálgast síðan næsta lægð úr suðri og síðdegis veldur hún hvassri suðaustanátt með rigningu á suðurhelmingi landsins. Aftur verður vindur hægari fyrir norðan og þar verður þurrt. 
Síðan er útlit fyrir að veður á laugardag og sunnudag verði heilt yfir rólegra heldur en verið hefur í vikunni,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurspáin fyrir næstu daga

Suðaustan 13-20 m/s og rigning í dag, talsverð suðaustan til á landinu. Hægari vindur og úrkomulítið á Norðurlandi. Hiti 3 til 9 stig. Sums staðar hvassari á austanverðu landinu í kvöld og nótt, en lægir þá vestan til. 
Gengur í hvassa suðaustanátt með rigningu á suðurhelmingi landsins síðdegis á morgun, en mun rólegra veður fyrir norðan og þurrt.

Á föstudag:
Vaxandi suðaustanátt, 15-23 m/s síðdegis og rigning, hvassast syðst á landinu. Hiti 3 til 8 stig. Hægari vindur norðanlands, þurrt og heldur kaldara. 

Á laugardag:
Suðaustan 10-15 og skúrir, en hægari og þurrt á norðanverðu landinu. Hiti 1 til 6 stig. 

Á sunnudag:
Austan og norðaustan 8-13, en 13-18 á Vestfjörðum. Rigning eða slydda með köflum, en yfirleitt þurrt á Suðvestur- og Vesturlandi. Hiti 0 til 5 stig. 

Á mánudag og þriðjudag:
Hvöss suðaustanátt og rigning, talsverð úrkoma suðaustan til á landinu. Hiti 3 til 8 stig. 

Á miðvikudag:
Suðvestanátt með skúrum eða slydduéljum framan af degi, en lægir síðan og styttir upp. Kólnandi veður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert