Ráðist á hótelstarfsfólk

mbl.is/Júlíus

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók tvo menn um miðnætti á hóteli í hverfi 105 en báðir höfðu ógnað fólki með hnífum. Um tvö aðskilin atvik er að ræða. Samkvæmt dagbók lögreglunnar óskaði starfsfólk hótelsins eftir aðstoð lögreglu upp úr miðnætti en þar var maður vopnaður hnífi að hóta starfsfólki og var um ítrekaðar hótanir að ræða.  

Þegar lögregla kom á vettvang var starfsfólk hótelsins að vísa öðrum manni út af hótelinu. Maðurinn var ölvaður og mun hafa verið að áreita starfsfólk. Þegar honum hafði verið vísað út dró maðurinn hníf úr vasa sínum. Maðurinn var handtekinn og vistaður fyrir rannsókn máls  í fangageymslu lögreglu líkt og sá sem hafði ógnað starfsfólkinu með hnífi.

Skömmu fyrir klukkan tvö í nótt var óskað eftir aðstoð lögreglu að hóteli í hverfi 101 vegna konu sem var í annarlegu ástandi. Konan hafði komið þar í afgreiðslu og var búið að vísa henni út sökum ástands. Konan hafði ráðist að starfsmanni og bitið hann í fótinn þannig að blæddi úr.  Konan var handtekin og vistuð fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Á tíunda tímanum í gærkvöldi var maður í annarlegu ástandi handtekinn í hverfi 101 fyrir að hóta fólki í verslun. Maðurinn var vistaður sökum ástands í fangageymslu lögreglu.

Síðdegis í gær var tilkynnt um umferðaróhapp í hverfi 112 en um árekstur tveggja bifreiða var að ræða. Annar ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur og mun ekki hafa notað öryggisbelti við aksturinn. Enginn slasaðist í árekstrinum, samkvæmt upplýsingum lögreglu.

Lögreglan stöðvaði för bifreiðar í hverfi 112 seint í gærkvöldi. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og vörslu fíkniefna. Farþegi í bifreiðinni er grunaður um vörslu fíkniefna og brot á lyfjalögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert