Formaður VR pantar gul vesti

Ragnar Þór Ingólfsson segist vera kominn með nóg af stjórnmálaástandinu …
Ragnar Þór Ingólfsson segist vera kominn með nóg af stjórnmálaástandinu á Íslandi og boðar til mótmæla. Morgunblaðið/Hanna

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hvetur fólk til að mótmæla stjórnmálaástandinu á Íslandi. Ragnar birti mynd á Facebook í dag af gulu vesti með áletrunum og spyr hvort hann eigi að panta fleiri.

Gula vestið er skýr tilvísun í mótmæli almennings í Frakklandi sem hófust 17. nóvember og hafa farið fram skipulega allar helgar síðan. Mótmælendur klæðast gulum vestum og í upphafi snerust mótmælin um fyr­ir­hugaðar skatta­hækk­an­ir á eldsneyti. Í kjöl­farið fylgdu óeirðir í helstu borg­um Frakk­lands sem voru verst­ar í höfuðborg­inni, Par­ís, þar sem kveikt var í bíl­um og mikl­ar skemmd­ir unn­ar á hús­næði fyr­ir­tækja.

Búinn að fá nóg

„Maður er orðinn langþreyttur á stöðunni í stjórnmálum, langþreyttur á því að öllu fögru er lofað og svo gerist ekki neitt eða að öllu fögru er lofað en svo gerist bara eitthvað allt annað,“ segir Ragnar í samtali við mbl.is og staðfestir að með færslunni sé hann að boða til mótmælaaðgerða. 

Í færslunni rekur hann nokkur mál sem tengjast íslenskum stjórnmálum og hafa verið fyrirferðamikil í umræðunni upp á síðkastið. „Kjörnir fulltrúar stunda hrossakaup á börum bæjarins, eru uppvísir af ósæmilegri hegðun, jafnvel kynferðislegri áreitni. Stjórnvöld lækka veiðigjöld og hækka framlög til stjórnmálaflokka. Þjóðarsjóður skal stofnaður fyrir einhverja dekurkálfa að gambla með,“ segir meðal annars í færslu Ragnars.

Hann segist einfaldlega vera búinn að fá nóg. „Það hefur ekki verið hreyft við neinum kerfisbreytingum og virðist ekkert eiga að gera. Fyrir mitt leyti er ég búinn að fá nóg, prívat og persónulega, og mér finnst þetta ekki boðlegt almenningi, þessi vinnubrögð, þessi samtrygging og þessi sátt um að gera aldrei nokkurn skapaðan hlut til að hrófla við þessu embættismannakerfi okkar og sömuleiðis verðtryggingunni, almannatryggingakerfinu og lífeyrissjóðakerfinu. Þetta stendur alltaf óhaggað og óbreytt, alveg sama hvort að það séu forsendur fyrir því að gera eitthvað,“ segir Ragnar.

Ekki viss um að hann muni leiða mótmælin

Ragnar segist vera tilbúinn til að mótmæla en ekki hefur enn verið boðað til þeirra formlega. „Fyrst þurfum við að panta vestin. Vonandi er einhver sem tekur af skarið og leiðir þessar aðgerðir, ég er ekki viss um að ég muni gera það sjálfur en ég er allavega búinn að kaupa mér vesti.“

Viðbrögðin við færslu Ragnars hafa ekki látið á sér standa og segist hann sannfræður um að hann sé ekki sá eini sem er búinn að fá nóg. „Þetta eru einhver korn og dropar sem eru smám saman að fylla mælinn hjá þjóðinni. Það er kominn tími á aðgerðir hjá stjórnvöldum eða þá að fólk þarf að gera eins og annars staðar er gert, taka málin í sínar hendur og mótmæla. Ég allavega fór og keypti mér vesti. Ég er tilbúinn til að panta fleiri ef fólki [sic] vantar.“

Á vestunum má finna áletranir á borð við „Þekktu þinn rétt!“, „Áfram með baráttuna!“ og „Kynferðisleg áreitni er ofbeldi!“ „Þetta eru kröfur VR. Sanngjarnar kröfur,“ segir Ragnar.

Formaður VR hefur látið prenta kröfur VR á gul vesti.
Formaður VR hefur látið prenta kröfur VR á gul vesti. Ljósmynd/Facebook
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert