Lægðin tekur völdin

Kort/Veðurstofa Íslands

Djúp lægð nálgast landið og þegar líður á daginn tekur hún yfir stjórnina á veðrinu á landinu og hún verður einnig við stjórnartaumana á morgun. Það er því von á hvassviðri og rigningu síðar í dag. Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir svo um veðrið í dag og á morgun:

„Þegar þetta er skrifað er 952 mb lægð stödd 1.000 km suðsuðvestur af Reykjanesi og þokast hún norður á bóginn og nálgast landið. Þessi lægð tekur stjórnina á veðrinu hjá okkur þegar líður á daginn og heldur einnig í taumana á morgun. 
Síðdegis gengur í allhvassa eða hvassa suðaustanátt með rigningu. Hægari vindur og þurrt norðanlands. Á morgun fer lægðin að grynnast. Þá gefur suðaustanáttin aðeins eftir og verður strekkingur algengur styrkur á henni og áfram má búast við vætu. Líkt og í dag verður vindur hægastur á Norðurlandi á morgun og þar helst áfram þurrt.
Hiti víða 2 til 7 stig, en kaldara á stöku stað fyrir norðan,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á sjöunda tímanum.

Veðurspáin fyrir næstu daga

Vaxandi suðaustanátt í dag, 13-20 m/s síðdegis og rigning. Hægari vindur og þurrt norðanlands. 
Suðaustan 10-15 á morgun og vætusamt, en áfram hægari vindur og þurrviðri á Norðurlandi. 
Hiti 2 til 7 stig.

Á laugardag:
Suðaustan 10-15 og skúrir, en rigning austan til á landinu. Hægari vindur og þurrt norðanlands. Hiti 1 til 6 stig. 

Á sunnudag og mánudag:
Austlæg átt, yfirleitt á bilinu 5-13 m/s. Dálítil rigning eða slydda með köflum, en þurrt á Vesturlandi. Hiti 0 til 5 stig, en vægt frost í innsveitum fyrir norðan. 

Á þriðjudag:
Stíf norðaustanátt með rigningu eða slyddu, en þurrt sunnan heiða. Hiti 0 til 5 stig. 

Á miðvikudag:
Norðanátt með éljum, en yfirleitt úrkomulaust á sunnanverðu landinu. Hiti kringum frostmark. 

Á fimmtudag:
Hægur vindur, bjart og vægt frost framan af degi. Vaxandi sunnanátt síðdegis, fer að rigna sunnan- og vestanlands og hlýnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert