„Pakkaflóð á Alþingi“

Drífa segir stjórnvöld gera lítið til að létta róðurinn í …
Drífa segir stjórnvöld gera lítið til að létta róðurinn í kjarasamningsviðræðum sem nú standi yfir. mbl.is/Árni Sæberg

„Á meðan þjóðin var upptekin við að greina dónatal á bar fór pakkaflóðið á Alþingi Íslendinga að mestu fyrir ofan garð og neðan en þar kennir ýmissa grasa,“ skrifar Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, í föstudagspistli sínum.

„Stjórnvöldum fannst nefnilega mikilvægt að lækka veiðigjöld á útgerðina en líka mjög mikilvægt að lögfesta síðasta dóm kjararáðs sem veitti kjörnum fulltrúum ríflegar launahækkanir,“ skrifar Drífa og bendir á að næsta launahækkun þingmanna og helstu embættismanna komi til álita strax í júní á næsta ári.

Það séu því engin áform um að vinda ofan af risahækkuninni frá október 2016 eða frysta laun kjörinna fulltrúa til þriggja ára eins og ASÍ hafi lagt til.

„Þessu til viðbótar er verið að hækka framlög til stjórnmálaflokka og styrkja störf þeirra með fjölgun stöðugilda.“

Vilji til að byggja meira og hraðar en stjórnvöld geri kleift

Drífa segir að nær hefði verið að veita auknu fé til bygginga húsnæðis fyrir tekjulágt fólk, en stofnstyrkir sem ætlaðir séu til verkefnisins dugi ekki fyrir fjölda umsókna. „Það er því vilji til að byggja meira og hraðar til að leysa úr húsnæðisvandanum en stjórnvöld gera kleift.“

„Nú er beðið niðurstöðu tveggja húsnæðisnefnda en við vitum hvar skó[r]inn kreppir og stjórnvöld geta ekki fríað sig ábyrgð á neyðarástandinu í húsnæðismálum meðan beðið er niðurstöðu. Lágmark er að mæta þörfum og getu til að byggja hagkvæmt á meðan unnið er að langtímalausnum.“

Drífa segir stjórnvöld gera lítið til að létta róðurinn í kjarasamningsviðræðum sem nú standi yfir og að ljóst sé að auka þurfi þrýstinginn verulega til hagsbóta fyrir vinnandi fólk.

Þá segist hún ekki geta látið líða hjá að minnast á uppsagnir WOW í gær. Hún segir ljóst að stéttarfélög starfsmannanna standi þétt við bakið á sínu fólki og sendir starfsfólki stuðningskveðjur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert