Róa stanslaust í heila viku

Sjö slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn ætla að róa næstu sjö daga …
Sjö slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn ætla að róa næstu sjö daga til styrktar Frú Ragnheiði - skaðaminnkunarverkefni Rauða krossins. Ljósmynd/Aðsend

Sjö slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn, fjórir karlar og þrjár konur, ætla að róa stanslaust í eina viku í verslun Under Armour í Kringlunni og safna fjármunum fyrir Frú Ragnheiði — skaðaminnkun. Leikar hefjast klukkan 17 í dag.

Ágúst Guðmundsson er einn þeirra sem taka þátt í átakinu og þekkir hann vel til hjá Frú Ragnheiði, sem er verkefni Rauða krossins i Reykjavík og hefur það markmið að ná til jaðarsettra hópa í samfélaginu eins og heimilislausra einstaklinga og þeirra sem nota vímuefni í æð.

„Ég veit að þau vantar ákveðið tæki sem ekki er gert ráð fyrir í rekstri verkefnisins í ár og því ákváðum við að safna fyrir því,“ segir Ágúst. Tækið sem um ræðir er eins konar vasaljós sem auðveldar að lýsa upp illa farnar æðar. Tækið mun nýtast vel í bíl Frú Ragnheiðar sem ekið er um götur höfuðborgarsvæðisins, sex kvöld í viku. Þangað geta einstaklingar leitað og fengið heilbrigðisaðstoð sem og nálaskiptiþjónustu. Markmiðið með nálaskiptiþjónustu er að draga úr líkum á sýkingum og smiti svo sem lifrarbólgu C og HIV meðal þeirra sem sprauta vímuefnum í æð.

Róa í klukkustund á sex tíma fresti

Róðurinn fer þannig fram að hver rær klukkutíma í senn á sjö klukkustunda fresti. Dagskráin er því ansi þétt. „Við erum öll í ansi fínu standi af því að við þurfum að standast okkar árlegu þrekpróf innan vinnunnar og vön vaktavinnunni þannig að það hjálpar örugglega líka,“ segir Ágúst.

Alls verða þrjár róðravélar í versluninni. „Við hvetjum fólk til að koma og róa með okkur, hvort sem það er mínúta eða klukkutími,“ segir Ágúst. Róðravélarnar þrjár smellpassa í sýningargluggann í verslun Under Armour og Ágúst segir að tilhugsunin um að vera lifandi jólaútstilling í heila viku sé tilhlökkunarefni.

Ágúst Guðmundsson hvetur fólk til að leggja málefninu lið, annaðhvort …
Ágúst Guðmundsson hvetur fólk til að leggja málefninu lið, annaðhvort með fjálsum framlögum eða að róa með slökkviðliðsmönnunum í verslun Under Armour í Kringlunni. Ljósmynd/Aðsend

Vegalengdin er aukaatriði

Tækið kostar um hálfa milljón og segir Ágúst að gaman væri að ná því en hann vill setja stefnuna enn hærra. „Ef við náum að safna milljón verð ég voða glaður.“ Nú þegar hafa safnast um 275.000 krónur svo óhætt er að segja að söfnunin fari vel af stað.

Ljóst er að vegalengdin sem mun nást á einni viku verður talsverð og miðað við lauslega útreikninga Ágústs ætti hópurinn að ná að róa yfir tvö þúsund kílómetra, ef gert er ráð fyrir að hver slökkviliðsmaður rói um 11,5-12,5 kílómetra á klukkutíma. „En vegalengdin er í sjálfu sér aukaatriði,“ segir Ágúst. „En það verða aumir rassar í lokin, ég get lofað því,“ bætir hann við.

Eins og fyrr segir hefst róðurinn klukkan 17 í dag í verslun Under Armour í Kringlunni og hægt verður að fylgjast með slökkviliðsmönnunum í heila viku, en róðrinum lýkur klukkan 17 föstudaginn 21. desember klukkan 17. Hægt er að leggja málefninu lið á vefsíðu Rauða krossins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert