„Hafið ekki skoðað mig að neðan!“

Valdimar Sverrisson ljósmyndari missti sjónina árið 2015.
Valdimar Sverrisson ljósmyndari missti sjónina árið 2015. mbl.is/​Hari

„Dagarnir liðu án þess að neitt gerðist. Ég man ekki hvað læknirinn sagði við mig á þessum tíma en fljótlega gerði ég mér grein fyrir stöðunni – að sjónin kæmi ekki aftur. Það var mér auðvitað þungbært og allskonar hugsanir bærðust með mér. Ég var lærður ljósmyndari með ung börn og gat ekki orðið blindur. Mín fyrstu viðbrögð voru að leggjast í þunglyndi, harma minn hlut, en fljótlega tók ég ákvörðun um að fara hina leiðina; takast á við þetta með húmornum og jákvæðninni. Það hlyti að gefast betur.“

Þetta segir Valdimar Sverrisson ljósmyndari en hann missti sjónina í kjölfar aðgerðar, þar sem góðkynja æxli á stærð við sítrónu var skorið úr höfði hans árið 2015. Valdimar hefur ekki fengið fullnægjandi skýringu á því hvers vegna hann tapaði sjóninni en fyrir liggur að æxlið þrýsti á augnbotnana. „Mér skilst að ekkert bendi til mistaka af neinu tagi í aðgerðinni. Ég veit ekki hvað gerðist og er löngu hættur að velta því fyrir mér. Þetta er búið og gert og lífið heldur áfram.“ 

Allt byrjaði það með persónuleikabreytingum, geðsveiflum, sinnuleysi, framtaksleysi, fjarveru frá vinnu, óhóflegum svefni, bjöguðu lyktar- og bragðskyni og versnandi sjón. Þetta var vorið 2015 og Valdimar var farinn að hegða sér mjög undarlega, eiginlega orðinn „kexruglaður“, eins og hann orðar það sjálfur, og varla í húsum hæfur. Alltént gafst sambýliskona hans upp og vísaði honum út af heimilinu, þar sem þau bjuggu ásamt tveimur ungum dætrum sínum, Hildi Önnu og Láru Margréti. Fyrir átti hann uppkomna dóttur frá fyrra sambandi, Valdísi Ingunni hjúkrunarfræðing.

„Eftir á að hyggja skil ég afstöðu hennar mjög vel,“ segir Valdimar. „Ég var orðinn virkilega erfiður í samskiptum; farinn að öskra og æpa og steyta hnefann af minnsta tilefni á heimilinu, allt áreiti lagðist á sálina á mér. Sambýliskonu minni var því nauðugur einn kostur – að vísa mér út. Hún hafði miklar áhyggjur af mér, hélt að ég væri þunglyndur og hvatti mig eindregið til að fara til læknis.“

Valdimar tekur lagið við undirleik Bjartmars Guðlaugssonar
Valdimar tekur lagið við undirleik Bjartmars Guðlaugssonar

Þegar Valdimar hafði heilsu til eftir aðgerðina var hann fluttur yfir á Grensás í endurhæfingu en fékk bakteríusýkingu þar og þurfti að leggjast aftur inn á spítala. Sýkingin reyndist vera kringum heilann og var Valdimar settur á tvennskonar sýklalyf; stífan kúr beint í æð í átta vikur. Hann fékk raunar ofnæmi fyrir öðru lyfinu og skipta þurfti um. Í varúðarskyni var hann á sýklalyfjum í samtals heilt ár.

Endurhæfingin á Grensási hófst þegar Valdimar var orðinn nægilega góður af sýkingunni. Hann kveðst hafa verið á algjörum núllpunkti. „Ég var eins og sprungin blaðra eftir aðgerðina; það var margra mánaða ferli að koma líkamanum af stað aftur. Ég þurfti meira að segja að læra að ganga upp á nýtt.“

Hann er óendanlega þakklátur fyrir hjálpina sem hann fékk á Grensási og nefnir Grétar Halldórsson, sjúkraþjálfara frá Selfossi, sérstaklega í því sambandi. „Hann kom mér aftur á fætur.“

Eftir um þrjá mánuði á Grensási var Valdimar útskrifaður og flutti þá aftur inn til móður sinnar. Þar dvaldist hann uns hann fékk íbúð í Sjálfsbjargarhúsinu í Hátúni í janúar 2016. „Til að byrja með var ég á annarri hæð í stúdíóíbúð en flutti hingað upp á þriðju hæðina í stærri íbúð í janúar á þessu ári. Ungur maður á uppleið,“ segir hann hlæjandi.

Ég sé fólkið ekki lengur

Fyrir lá að líf Valdimars yrði aldrei eins og áður og strax í endurhæfingunni fór hann að velta fyrir sér hvaða stefnu hann gæti tekið. „Frá því að ég var unglingur hafði mig langað til að vera með uppistand. Steinar Kristjánsson vinur minn tók þátt í uppistandskeppni meðan við vorum í Verzló og ég fann að það var eitthvað sem ég gæti hugsað mér. Lét þó aldrei slag standa; í fyrsta lagi þorði ég ekki að standa fyrir framan allt þetta fólk og í annan stað fannst mér ég ekki vera með nægilega gott efni. Svo liðu árin án þess að neitt gerðist. Það var ekki fyrr en á Grensási sem ég fór að leiða hugann að þessu fyrir alvöru. Hugsaði með mér: Ég sé ekki fólkið lengur og þarf fyrir vikið ekki að hafa áhyggjur af þeim þætti málsins. Eins fannst mér ég vera kominn með býsna gott efni sem að mestu leyti tengdist sjálfum mér og veikindum mínum. Svartur húmor, gæti einhver sagt, en það var einmitt það sem hjálpaði mér mest að stíga þessa öldu.“

Valdimar hljóp 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar og kemur …
Valdimar hljóp 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar og kemur hér í mark ásamt Jósteini Einarssyni sjúkraþjálfara.

Það kom strax í ljós við greiningu æxlisins. Læknirinn færði Valdimari fréttirnar og hnýtti við að greiningin kæmi svolítið á óvart, mein sem þetta væri algengast hjá eldri konum.

„Tja, þið hafið ekki skoðað mig fyrir neðan mitti!“ svaraði þá sjúklingurinn. Á þeirri stundu stökk lækninum víst ekki bros.

Valdimar hafði horft mikið á Seinfeld í sjónvarpinu gegnum árin og sótti hugmyndir og styrk þangað. Eins var Hellisbúinn í flutningi Bjarna Hauks Þórssonar honum innblástur. „Ég sá þá sýningu á sínum tíma, hún var gjörsamlega frábær. Ég man sérstaklega eftir einu atriði, þar sem salurinn hló svo mikið að Bjarni sá bara einn kost í stöðunni; að hlæja með okkur. Það hlýtur að hafa verið frábær tilfinning.“

Ég verð með uppistand!

Meðan Valdimar vann hjá Prentmeti fékk hann útrás fyrir spéþörfina með því að gera myndbönd fyrir árshátíð fyrirtækisins, þannig gat hann bara setið úti í sal meðan spaugið rúllaði. „Vorið 2016 hringdu eigendurnir, Guðmundur Ragnar Guðmundsson og Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir, og buðu mér á árshátíð Prentmets og sögðu að skemmtinefndin vildi endilega fá mig í nokkur atriði í myndbandinu. Ég var til dæmis vanur að leika Guðmund Ragnar enda eini maðurinn sem treysti sér í það. Síðan hætti skemmtinefndin við myndbandið sem voru mér talsverð vonbrigði. Það varð til þess að ég hringdi og tilkynnti að ég ætlaði að vera með uppistand á árshátíðinni. Stutt símtal en stórt skref fyrir mig. Þarna var að hrökkva eða stökkva.“

Fyrsta „gigg“ Valdimars sem uppistandara var á árshátíð Prentmets snemma árs 2016 á Hótel Örk í Hveragerði. „Örn Árnason leikari var veislustjóri, þaulvanur maður, og ég fann hvernig stressið magnaðist með hverri mínútu sem leið. Hvað var ég eiginlega búinn að koma mér út í? Jæja, ég var kallaður upp og byrjaði. Fór svo sem þokkalega af stað en fann fljótlega að ég var að verða svakalega þurr í hálsinum. Nú fer röddin að gefa sig, hugsaði ég með mér. Í þeim pælingum klikkaði míkrafónninn – í miðjum brandara. Hann var lagaður í snarhasti og á meðan gleymdi ég því hvað ég var þurr í hálsinum og náði mér bara ágætlega á strik eftir þetta. Bakkaði bara um tvær línur og hélt áfram. Á heildina litið fannst mér þetta ganga ágætlega og viðtökur voru vonum framar. Er ekki sagt að fall sé fararheill?“

Ef þú lofar að koma aldrei aftur

Það er ekki bara uppistandið, eftir að hann missti sjónina, Valdimar hefur líka látið annan gamlan draum rætast – að syngja opinberlega. „Ég hafði aldrei lært söng og aldrei sungið nema lágt innan um aðra en þegar ég varð fimmtugur í fyrra þá langaði mig að halda almennilega upp á þann áfanga og um leið þá staðreynd að ég hefði lifað veikindi mín af með því að syngja fyrir veislugesti. Ég bar þetta undir móður mína og hún sagði strax já enda þótt hún hefði aldrei heyrt mig syngja. Þrátt fyrir þá trú ákvað ég eigi að síður að panta mér söngtíma til að undirbúa mig sem best.“

– Og hvernig gekk það?

„Það gekk þannig að þegar ég spurði eftir fyrsta tímann hvað hann kostaði þá svaraði söngkennarinn alvarlegur í bragði: Ekkert ef þú lofar að koma aldrei aftur!“

– Nú skrökvarðu!

„Já.“

Hann hlær stríðnislega.

Valdimar tók nokkra söngtíma og fór á flug eftir að söngkennaranum, Sólveigu Unni Ragnarsdóttur hjá Vocalist, hugkvæmdist að hækka Týndu kynslóðina eftir Bjartmar Guðlaugsson upp um áttund. „Þá small þetta.“

Valdimar ásamt foreldrum sínum, Önnu Valdimarsdóttur og Sverri Kristinssyni sem …
Valdimar ásamt foreldrum sínum, Önnu Valdimarsdóttur og Sverri Kristinssyni sem voru eitt sinn gift.

Valdimar fékk hljómsveit undir stjórn Davíðs Valdimarssonar vinar síns til að spila undir hjá sér en yfir eitt hundrað manns mætti í fimmtugsafmælið í safnaðarheimili Fríkirkjunnar á Laufásvegi. Afmælisbarnið fór með gamanmál og söng nokkur vel valin lög, meðal annars Sjúddirarí rei eftir Gylfa Ægisson og nokkur Bítlalög, en þeir Paul McCartney eiga sama afmælisdag. Spurður hvernig til hafi tekist svarar Valdimar: „Bara vel, alla vega tæmdist ekki salurinn.“

Valdimar Sverrisson hefur ekki setið auðum höndum eftir að hann varð blindur. Spurður hvers hann sakni mest frá því hann hafði sjónina hallar hann undir flatt og segir: „Ég reyni að hugsa sem minnst um það. Sá tími er liðinn. Sjónin er farin og ég geri mér ekki vonir um að sjá á ný. Auðvitað væri gaman að geta horft aftur á konur og kvikmyndir en ég hugsa samt meira um viðfangsefnin sem blasa við mér í dag. Mér hefur gengið vel að aðlagast nýjum veruleika og kýs að hugsa frekar um kosti en galla þess að vera blindur. Ég meina, það fylgja því allskonar fríðindi að vera blindur. Einu sinni hringdi ég til dæmis í Séð & heyrt og spurði hvort ég ætti ekki rétt á 50% afslætti!“

Engum sögum fer af viðbrögðum hinum megin á línunni.

Ítarlega er rætt við Valdimar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert