Fimm mál hafa verið tekin fyrir hjá trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar

Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar.
Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Árni Sæberg

Fimm mál hafa verið tekin fyrir hjá trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar frá því að trúnaðarnefndin var sett á fót í febrúar fyrr á þessu ári. Frá því greinir Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður Samfylkingarinnar og borgarfulltrúi, í samtali við mbl.is.

Eitt málanna er mál Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem tók sér launalaust leyfi frá þingstörfum eftir að hann fékk áminningu frá trúnaðarnefndinni.

Trúnaður ríkir um störf nefndarinnar og hefur því ekki verið upplýst um hvers eðlis önnur mál en mál Ágústs Ólafs hafa verið, hvort kjörnir fulltrúar Samfylkingarinnar hafi átt þar í hlut eða hverjar niðurstöðurnar í þeim málum voru. Ágúst greindi sjálfur frá sínu máli sem skýrir hvers vegna mál hans er þekkt en önnur ekki.

Ágúst Ólafur Ágústsson fór í launalaust leyfi frá þingstörfum eftir …
Ágúst Ólafur Ágústsson fór í launalaust leyfi frá þingstörfum eftir að málið kom upp. mbl.is/​Hari

„Þetta er vettvangur sem við erum að beina fólki í að nýta sér. Við viljum gera allt til að koma í veg fyrir að áreitni eða óæskileg hegðun eigi sér stað,“ segir Heiða Björg og bætir við að mikilvægt sé í fjöldahreyfingu eins og Samfylkingunni að siðareglur séu til staðar, sem fylgt sé eftir, til þess að tryggja að fólk komi fram við hvert annað af virðingu og háttvísi. Trúnaðarnefndin taki á málum allra og skoði þau.

Ekki áhyggjur af hvítþvætti

Í reglum Samfylkingarinnar um störf trúnaðarnefndar segir að ákvarðanir trúnaðarnefndar geti verið að ljúka umfjöllun án viðurlaga þegar ekki er ástæða til viðbragða, samtal og eftir atvikum ráðgjöf til annars eða beggja málsaðila, áminning trúnaðarnefndar eða að gerð verði tillaga um að víkja aðila úr öllum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn.

Spurð hvort það skapi ekki hættu á hvítþvætti gagnvart kjörnum fulltrúum Samfylkingarinnar að gera mál upp með þessum hætti alfarið innan flokksins segist Heiða Björg ekki telja svo vera, heldur sé þvert á móti opnað á samtal um hvernig flokkurinn vilji starfa. Bendir hún einnig á að alvarlegri mál, þar sem grunur leikur á að lögbrot hafi verið framið, eigi heima hjá lögreglu.

Líkt og greint var frá í Morgunblaðinu í morgun líkaði formaður trúnaðarnefndar við Facebook-færslu Ágústs Ólafs þegar hann greindi frá því að hann hygðist taka sér launalaust leyfi eftir að hafa verið áminntur af nefndinni. Sagði Guðrún Ögmundsdóttir, formaður trúnaðarnefndar, að það hefði ekki verið viðeigandi fyrir hana, sem formann nefndarinnar, að sýna slík viðbrögð við færslunni. Það hafi verið gert í hvatvísi.

Guðrún Ögmundsdóttir, formaður trúnaðarnefndar Samfylkingarinnar.
Guðrún Ögmundsdóttir, formaður trúnaðarnefndar Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í kjölfar þess að Ágúst Ólafur birti Facebook-færsluna steig konan, sem hann hafði hagað sér óviðeigandi í samskiptum við, fram og sagði hann gera minna úr málinu en tilefni væri til. Sagði hún að ekki hefði verið um misheppnaða viðreynslu að ræða, heldur ítrekaða áreitni og niðurlægingu.

Heiða Björg segist ekki geta tjáð sig um hvað fólk líki við á Facebook og vildi því ekki bregðast sérstaklega við því hvort hún teldi eðlilegt að formaður nefndarinnar hafi líkað við færslu Ólafs. „Mér finnst trúnaðarnefndin hafa staðið sig vel í þessu máli og sannað gildi sitt. Ég get ekki tjáð mig um hvað hver lækar á Facebook. Ég get ekki fylgst með því,“ segir Heiða Björg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert