Eiga rétt á að velja hvar þeir búa

„Það að fatlaður maður sé þvingaður til að búa einhvers …
„Það að fatlaður maður sé þvingaður til að búa einhvers staðar er klárt brot á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks,“ segir Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar. mbl.is/Hari

Það er klárt brot á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að þvinga einstakling til búsetu einhvers staðar. Þetta segir Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, í samtali við mbl.is. Greint var frá því í kvöldfréttum RÚV í gær að karlmanni með alvarlegan geðsjúkdóm hefði fyrir tveimur árum verið komið fyrir á sveitabæ á Austurlandi því ekki voru önnur úrræði í boði.

Maðurinn, sem hafði í níu ár búið á stofnun á Höfn í Hornafirði þar til hún var lögð niður, vill ekki búa lengur á sveitabænum og hefur faðir hans, Þröstur Ingólfur Víðisson, komið að lokuðum dyrum er hann leitar nýrra úrræða fyrir son sinn.

„Það að fatlaður maður sé þvingaður til að búa einhvers staðar er klárt brot á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þvert á móti eiga fatlaðir rétt á að búa þar sem þeir vilja, með þeim sem þeir vilja og með þann stuðning sem þeir þurfa á að halda. Þannig að hann á rétt á því að velja hvar hann vill eiga heima. Hvort sem það er á Höfn, í Reykjavík eða einhver staðar,“ segir Anna Gunnhildur.

Getur líklega fengið búsetuúrræði í Reykjavík

Hún kveðst í dag hafa rætt við bæði Reykjavíkurborg og Þröst um mál mannsins og hjá borginni hafi hún fengið þau svör að ef maðurinn myndi sækja um sértæka búsetu sem gæti t.d. verið í búsetukjarna, þá myndi hann líklega geta fengið búsetuúrræði á næsta ári. „Eða í síðasta lagi árið 2020, af því að það er að koma innspýting í búsetuúrræði fyrir fólk með geðfötlun í Reykjavík.“

Anna Gunnhildur segir mál mannsins því miður ekki vera einsdæmi. „Því miður er það þannig að fólk með flókna fötlun, ég tala nú ekki um geðfatlað fólk, hefur orðið eftir af því að það er kannski ekki jafn sterkir talsmenn fyrir sjálft sig og margir aðrir.“ Þetta er að hennar mati sá hópur sem hafi orðið langmest út undan á Íslandi varðandi þjónustu.

„Það eru fjölmörg dæmi um þetta og að örmagna aðstandendur sem eru að reyna að hreyfa málum fyrir sitt fólk hafi gengið á lokaðar dyr. Því miður er ekki einsdæmi að fólk upplifi það sama og pabbi þessa manns þegar hann hefur samband við stofnanir sem eiga að hjálpa honum,“ segir Anna Gunnhildur og kveður vanta upp á að leiðbeiningaskyldu stjórnsýslunnar sé sinnt.

Ráða illa við að veita þjónustuna

Vandinn sé þó einnig sá að Höfn og fjöldi annarra sveitarfélaga ráði illa við að veita fötluðum þá þjónustu sem þeir eiga rétt á. „Það eru 72 sveitarfélög á Íslandi og fimm þeirra eru með undir 70 íbúum. Þessi fámennu sveitarfélög og alveg upp í miðlungsstór sveitarfélög eins og Höfn ráða illa upp á að bjóða upp á þá þjónustu og það úrval á úrræðum sem fólk með flókna fötlun þarf á að halda,“ segir hún.

Við úthlutun fjármuna með fötluðum einstaklingum er miðað við svo nefnt SIS-mat, sem að sögn Önnu Gunnhildar er ekki miðað við geðfatlaða, heldur þá sem eru líkamlega fatlaðir eða eigi við þroskaskerðingu að stríða. „Það passar ekki við okkar fólk,“ segir hún og kveður geðfatlaða koma mun hæfara út úr matinu en efni standi til. SIS-matið veiti fólki til að mynda styrkleikastig fyrir líkamlega getu eins og að ganga og standa upp og þar skori fólk með geðfötlun skiljanlega hátt.

Sveitarfélögin fái því lítið greitt með þessum hópi og geðfatlaðir geti þá hugsanlega fengið verri þjónustu en þeir ættu að fá.

Fagráð verði látin leggja mat á þjónustuþörf

„Það sem við höfum viljað gera er að sjá innspýtingu í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og síðan væru stofnuð fagráð, mögulega tengd Sambandi íslenskra sveitarfélaga, sem myndu leggja mat á þjónustuþörf hvers og eins út frá líkamlegri fötlun, andlegri fötlun, þroskahömlun og fyrir börn með fötlun og kostnaðinum sem þessu fylgi,“ segir Anna Gunnhildur. „Þetta er eina leiðin til að stuðla að jafnræði í þjónustu við fólk og til að stuðla að því að það fái alls staðar sömu þjónustuna. Fólk á að geta valið hvar það býr og hvar það þiggur þjónustuna.“

Anna Gunnhildur lagði fram tillögu að fagráðinu, sem hefur verið í umræðunni áður, á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í haust. Hún kveðst ekki hafa fengið viðbrögð frá ríki eða Sambandi sveitarfélaga, en hún hafi hins vegar fengið viðbrögð frá öðrum fötlunarsamtökum sem telji þetta vera málið því SIS matið nái ekki yfir alla hópa. „Það þarf eitthvað nýtt,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert