Skaðabótaskylda vegna falls á veitingastað

mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Veitingastaður hefur verið dæmdur skaðabótaskyldur vegna slyss sem kona varð fyrir í stiga þar árið 2015. Féll konan í stiganum, en í málinu var meðal annars tekist á um hvort öryggi hefði verið nægt í stiganum, en þar voru engin handrið þegar slysið átti sér stað.

Atvikið sem deilt er um varð þegar konan var á leið út um inngang á veitingastaðnum sem var meðal annars notaður af reykingafólki. Voru þar fjögur þrep, en fram kemur í dóminum að engin handrið hafi verið í stiganum, þrátt fyrir að byggingarreglugerð segi að slíkt eigi að vera í öllum stigum. Þá eigi handrið að vera beggja vegna í stiga sem er meira en 0,9 metrar á breidd. Stiginn þar sem konan féll var hins vegar 1,6 metrar á breidd.

Við fallið í stiganum slasaðist konan á hné með þeim afleiðingum að flytja þurfti hana á brott í sjúkrabifreið og gekkst hún undir aðgerð vegna áverkanna. Var hún úrskurðuð með varanlegan miska eftir slysið og var læknisfræðileg örorka metin til sjö stiga.

Forsvarsmenn veitingastaðarins töldu hins vegar að slysið hefði ekki orsakast vegna vanbúnaðar stigans heldur til óvarkárni konunnar. Kom fram í málinu að hún hafði drukkið tvö vínglös áður en hún kom á staðinn og þá töldu forsvarsmenn staðarins að hún hefði auk þess drukkið tvö önnur vínglös inni á staðnum áður en óhappið varð.

Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að ekki sé neitt sem bendi til þess að konan hafi fallið af öðrum ástæðum en hún lýsti sjálf, en konan taldi sig hafa runnið í bleytu í stiganum. Segir í dóminum að ekkert hafi komið fram sem bendi til að óhappið hafi komið til vegna ástands skófatnaðar, ölvunarástands eða umferðar annarra gesta.

Í ljósi þessa telur dómurinn að það hafi verið óhappatilviljun að konan missti jafnvægið og að líklegra sé en ekki að algjör skortur á handriðum við stigann hafi átt þátt í því hversu slæmt fall konunnar varð, enda hafi hún ekki getað varist því með stuðningi handriðs.

„Hefði stefndi með auðveldum hætti getað tryggt öryggi gesta sinna mun betur en gert var með því að koma fyrir handriðum við stigann, eins og síðar var gert í kjölfar slyssins. Í ljósi algjörs skorts á handriðum þykir stefndi verða að bera hallann af vafa um það hvort handrið hefði getað forðað líkamstjóni stefnanda,“ segir í dóminum og er veitingastaðurinn því sagður skaðabótaskyldur.

Konan taldi einnig að bryggjutimbur sem notað væri í þrepum stigans hentaði ekki aðstæðum og væri varhugavert. Dómurinn taldi hins vegar ekkert hafa komið fram sem sýndi fram á það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert