„Þarna er mikilvægum áfanga náð“

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. mbl.is/​Hari

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra segir niðurstöðuna á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Katowice í Póllandi í gær vera mikilvægan áfanga þó að enn standi ákveðin atriði út af sem þurfi að klára á ráðstefnunni að ári. Samkomulagið býr til regluverk varðandi innleiðingu Parísarsamningsins  m.a. varðandi fyrirkomulag loftslagsbókhalds og hvernig halda eigi utan um losunartölur þannig að fylgjast megi með árangri af þeim markmiðum sem sett hafa verið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

„Þarna er mikilvægum áfanga náð með samkomulaginu í gær,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is. „Það er mikilvægast að komnar eru leiðbeiningar sem virkja Parísarsamkomulagið.“ Hann segist þó taka undir gagnrýni sem hafi komið fram, t.d. varðandi það hvernig ákveðin ríki hafi beitt sér gegn því að fagna útkomu skýrslu IPCC sem kom út í október. Segir Guðmundur að niðurstaðan núna hafi verið ákveðin diplómatísk lausn sem þó sé mikilvæg til að taka næstu skref.

Ráðstefnan var um margt annað jákvæð fyrir Ísland að sögn Guðmundar. Segir hann að Ísland hafi ákveðið að standa með yfirlýsingu Evrópusambandslandanna varðandi framkvæmda Parísarsamkomulagsins. Þá sé unnið að drögum að sameiginlegum markmiðum með Evrópusambandsríkjum. Segir hann samræmdar reglur með helstu viðskiptaþjóðum Íslands skipta miklu máli, meðal annars þannig að fyrirtæki sitji við sama borð og önnur í Evrópu þar sem umhverfismál séu mjög framarlega.

Fulltrúar Íran og Kína í loftslagsmálum ásamt Michal Kurtyka, forseta …
Fulltrúar Íran og Kína í loftslagsmálum ásamt Michal Kurtyka, forseta ráðstefnunnar í Katowice fögnuðu niðurstöðunni í gær. AFP

Þá segir hann Ísland ásamt öðrum ríkjum í svokölluðu kolefnishlutleysisbandalagi hafa reynt að fá fleiri þjóðir með sér að setja sér markmið um kolefnishlutleysi. Ríkisstjórn Íslands hefur meðal annars sett sér markmið um að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040.

Ísland er lítið land þegar kemur að kolefnislosun í heiminum. Guðmundur segir að sín skoðun sé að Ísland eigi fyrst og fremst að vera góð fyrirmynd þegar komi að þessum málum. Bendir hann á að Ísland hafi náð góðum árangri í gegnum tíðina í raforkuframleiðslu og húsahitun. „Nú þurfum við að vera í farabroddi varðandi orkuskipti í samgöngum,“ segir hann og bætir við að þjóðin geti verið framarlega varðandi kolefnishlutleysi. „Við eigum að geta sýnt fram á góð dæmi í litlu hagkerfi sem megi líta til þegar horft er til stærri skala.“

Fundur loftlagsnefndar Sameinuðu þjóðanna fer fram að ári og segir Guðmundur að hann vonist til þess að þjóðir heimsins verði þá búnar að klára það sem út af stendur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert