Tveir mánuðir fyrir að stela vörum fyrir 1.190 kr

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Kona á þrítugsaldri var í síðustu viku dæmd í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa stolið vörum fyrir 1.198 krónur úr verslun við Laugaveg. Er dómurinn núna hegningarauki við tvo fyrri dóma sem konan hafði hlotið á síðasta ári vegna fíkniefnabrots, þjófnaðar og brots gegn valdstjórninni.

 Í dómi héraðsdóms kemur fram að konan hafi játað brot sitt skýlaust og sé með því ásamt öðrum gögnum málsins fundin sek um þjófnaðinn. Krafðist hún vægustu mögulegrar refsingar.

Sama dag var önnur kona dæmd í mánaðar skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa stolið söluvarningi að andvirði 7.678 krónum úr verslun í Reykjavík. Játaði sú kona einnig brot sitt skýlaust. Hún hafði ekki hlotið dóm áður, en hafði gengist undir sektarrefsingu fyrir fjórum árum vegna þjófnaðarbrots.

Þá var karlmaður einnig dæmdur í mánaðarlangt skilorðsbundið fangelsi fyrir fimm þjófnaðarbrot frá október í fyrra til apríl í ár. Var samtals upphæð þýfisins um 150 þúsund krónur. Maðurinn hefur tvisvar áður hlotið dóma vegna þjónaðar og umferðarlagabrota, en hann hafði þó staðist skilorð síðasta dómar og hafði fyrra brot því ekki áhrif til hegningarauka í þetta skiptið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert