Engan bilbug að finna á SGS

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Árni Sæberg

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir í samtali við mbl.is að honum þyki miður að Efling hafi ákveðið að draga samningsumboð sitt í kjaraviðræðum til baka frá sambandinu, en hvert félag hafi hins vegar ákvörðunarvald í þessum efnum.

„Hvert félag hefur auðvitað sjálfstæða ákvörðun um það að veita samningsumboð og draga það til baka þannig að ef félög telja ástæðu til þess, eins og Efling hefur gert, þá þykir mér það bara miður. En þetta er auðvitað ákvörðun hvers og eins félags.“

Spurður hvort ákvörðunin komi á óvart segir Björn svo ekki endilega vera í ljósi umræðunnar undanfarna daga. „En menn geta hvenær sem er dregið sig út. Við í Starfsgreinasambandinu höfum áður verið í fleiri en einum parti og við höldum bara okkar striki fyrir þau félög sem eru áfram með umboðið hjá okkur.“

Spurður hvort hann eigi von á að fleiri félög innan Starfsgreinasambandsins eigi eftir að afturkalla samningsumboð sitt segist Björn ekki vita það en hann hafi ekki heyrt af slíku. 

„Maður veit aldrei en það er engan bilbug að finna á okkur gagnvart þeim félögum sem hafa veitt okkur umboð. Við munum bara halda því áfram og ná kjarasamningi. Það er aðalmálið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert